Ragnheiður Gröndal
Í varastjórn hæglætishreyfingarinnar á Íslandi
Ég starfa sem tónlistarkona, er mamma og unnusta, lærður jógakennari og nú nemandi við viðskiptafræðideild Háskólans á Akureyri en bý í Reykjavík.
Ég hef áhuga á heilsu á víðum grunni, hamingja, vöxtur, hugrækt, jákvæðni, tónlist, fjölskyldulíf, tíðahringurinn og veganismi.
Mínar hæglætis áherslur eru að láta af multi-taski, forgangsraða og gefa sjálfum sér pláss til að fækka hlutum sem þarf að gera og umfram allt gefa öllu tíma og rými til þess að gerast. Ég reyni að skipta út “ætti að” fyrir “ég vel að” og leyfi mér að vera í temmilega skipulögðu flæði. Það þýðir að ég hlusta meðvitað á andlegar og líkamlegar þarfir og hvernig mér líður hverju sinni.
Ef ég er þreytt þá geri ég minna en ef orkumikil þá geri ég meira. Einnig er ég mjög áhugasöm um innsæið og trúi því að heimurinn væri betri ef allir myndu hlusta á og hlýða innsæinu sínu. Að fylgja innsæinu gengur meðal annars út á að segja já við því sem gleður mann og nærir en nei á fallegan hátt þegar maður finnur að eitthvað er ekki rétt fyrir mann.
Þetta hjálpar mér að halda kvíða, streitu og áhyggjum frá. Þær minna mig á að ég er ábyrg fyrir eigin hamingju og að neikvæður samanburður við aðra er niðurbrjótandi og óþarfur. Allir eru á sinni einstöku vegferð.