top of page
Search
Hæglætishreyfingin á Íslandi

"Ég fór í háskóla til að læra að þegja"- samskipti við aðra.

Updated: Oct 30

Samkvæmt taugasérfræðingum og fleiri sérfræðingum erum við meðvituð um uþb. 5% af vitrænni virkni okkar. Þannig að langflestar ákvarðanir okkar og aðgerðir, tilfinningar og hegðun veltur á 95% af ómeðvitaðri heilastarfsemi, umfram meðvitaða vitund okkar.


Við stöndum, setjumst, göngum, teygjum okkur, klórum okkur og fleira ómeðvitað. Að sama skapi getum við tannburstað okkur, skeint okkur, hámað í okkur heilan hamborgara og drukkið allt of mikið af kaffi án þess að hugsa um það.


Okkur er stýrt áfram af venjum okkar.


Þetta er auðvitað ofsalega þægilegt. Minni vinna fyrir okkur. En þetta getur líka haft öfug áhrif og aukið vinnu okkar. Við getum til dæmis „rankað“ við okkur fyrir utan vinnustaðinn okkar þegar við ætluðum í búðina. Við settumst upp í bílinn, spenntum beltið, keyrðum af stað og sjálfstýringin, eða venjurnar, létu okkur keyra þangað sem við erum vön að fara. Þetta hefur engin stór áhrif, bara nokkrar mínútur glataðar. Við komumst á áfangastað.


Aðrar ómeðvitaðar aðgerðir geta hins vegar haft alvarleg áhrif. Við erum td. líklegri til að lenda í bílslysi ef athyglin er ekki við aksturinn. Við erum líklegri til að slasa okkur, týna hlutum, gleyma einhverju - jafnvel börnunum okkar, og svo framvegis.


Það segir sig eiginlega sjálft að ef samskipti okkar, hvað við segjum, hvað við heyrum, hvernig við svörum og bregðumst við eru gerð á sömu sjálfstýringu þá erum við líklegri til að lenda í samskiptavanda.


Án þess að fatta það getum við sært aðra, hunsað, reitt til reiði og gert lítið úr ef við svörum án þess að hugsa.


Ég er þeim kostum gædd að ég get klárað setningar fyrir aðra, svarað áður en viðmælandinn klárar spurninguna, veit hvað aðrir vilja áður en þeir segja mér það og get jafnvel lesið hugsanir.


Ókostirnir við þetta eru að hinn einstaklingurinn ætlaði að klára setninguna öðruvísi, var ekki að spyrja um það sem ég svaraði, vildi eitthvað allt annað en ég hélt og var alls ekki að hugsa það sem ég gerði ráð fyrir.


Þetta hjálpar mér takmarkað og þetta er ofsaleg aukavinna fyrir mig. Af hverju leyfi ég ekki hinum að tala, svara, segja og ákveða? Og ég fæ að slaka og njóta á meðan!


Þegar ég fór á fyrsta AA fundinn minn fyrir um átta árum síðan upplifði ég svo sterkt að þegja og raunverulega hlusta á aðra, án þess að gjamma inn í eða ímynda mér hvað hinir ætluðu að segja eða voru að hugsa, að ég held að kannski var þetta í fyrsta sinn í lífinu sem ég hlustaði. Sko, alvöru hlustaði, með athyglina á einum stað.


Fimm árum síðar hóf ég nám í markþjálfun í Háskólanum í Reykjavík. Námið snýst um að kenna og undirbúa nemendur til að geta markþjálfað aðra. Tækin sem markþjálfi notar eru:

  • Virk hlustun

  • Endurspeglun og

  • Öflugar spurningar

Námið var dýrt en þegar ég útskýrði fyrir manninum mínum að það byggðist á að ég myndi læra að þegja og hlusta þá hvatti hann mig heilshugar til að fara í það, og bauðst til að borga það allt 😉


Ég fór sem sagt í háskóla til að læra að þegja og HLUSTA, og það er eitt af því besta sem ég hef lært. Kennsluaðferðirnar voru fjölbreyttar og áhugaverðar, ekkert í líkingu við þær aðferðir sem mér voru kenndar í grunnskóla: “þegiðu og hlustaðu” Punktur. Það er bara ekki nóg.


Auðvitað hljómar þetta fáránlega en staðreyndin er sú að þó að við hreyfum okkur eitthvað á hverjum degi er ekki víst að við séum með gott þol, mikla orku, styrk, snerpu og liðleika. Þó að við hugsum öllum stundum er ekki víst að við séum í góðu andlegu formi. Þó að við tölum allan daginn er ekki víst að við segjum neitt af viti eða sem skiptir máli og þó að við heyrum þá er ekki víst að við hlustum eða heyrum það sem skiptir máli, heyrum það sem við okkur er sagt eða ósagt. Óyrt samskipti, þögnin er nefnilega líka hluti af samskiptum. Orðaval, tónn, tónhæð, talhraði, svipbrigði, líkamsstaða og hreyfingar eru líka partur af samskiptum.


Það er svo mikilvægt að gefa þessu gaum, vera í meðvitund og æfa sig í þessu. Því eins og með allt er líklegasta leið að árangri meðvitund, vilji og æfing.


Það er hagur allra að hafa samskiptafærni. Til að mynda er „góð eða framúrskarandi samskiptafærni“ orðin krafa í flestum störfum.... ef gerðar væru sömu kröfur þegar við förum inn í sambönd væru kannski færri skilnaðir, erfiðleikar, rifrildi og vanlíðan!! En mögulega væru þá meirihluti mannkynsins á lausu, allavega ef við miðum við að 95% af hegðun okkar og samskiptum er gerð án mikillar umhugsunar.


Nokkrir fíknisérfræðingar sem ég hef miklar mætur á vilja meina að tengsl séu besta forvörn gegn fíkn. Í þessu samhengi er átt við innileg tengsl sem byggjast á trausti og virðingu. Þess háttar tengsl er byggð á samskiptum. Samskipti eru því grunnur að tengslum, sem er grunnur að innihaldsríku lífi þar sem ekki er þörf á uppfyllingarefnum og tilfinningadeyfilyfjum eins og áfengi, eiturlyfjum, ofáti, kynlífi, sjálfskaða, samböndum eða öðru sem fólk notar til að fylla upp í líf sitt á óhóflegan hátt til að þurfa ekki að takast á við erfiðar hugsanir og tilfinningar.


Mér hefur fundist skemmtilegt en líka erfitt ferli að læra og innleiða nýjar samskiptaaðferðir.


Það er stórt og mikið verk að hugsa hvaða samskipti og sambönd fá mig til að blómstra og hver ekki. Hvað þarf ég að laga og hvað þarf ég að losa mig við. Það er erfitt að losa sig við gamlar venjur og slíta sig úr viðjum vanans og getur verið sérlega sársaukafullt að velta fyrir sér af hverju einhver samskipti voru eins og þau voru: af hverju sagði þessi þetta við mig, af hverju sagði ég þetta, af hverju hlustaði enginn á mig, af hverju talaði enginn við mig þannig að ég skildi það, af hverju særði þessi mig, gerði þessi lítið úr mér og lét þessi mér líða illa?


Þau svör sem ég hef fundið eru að sárafáir eiga í meðvituðum virðingarríkum heilshugar samskiptum öllum stundum, þannig að á hverjum degi segir einhver eitthvað sem særir, pirrar, níðir, kveikir á skömm, vanlíðan eða vonleysi- hjá sjálfum sér og öðrum.

Þetta þarf að breytast.


Mitt hæglæti og mínar áherslur í lífi og starfi snúast um sambönd og samskipti, við okkur sjálf og aðra.


Þegar mér tekst að vera í meðvitund og hæglæti (sem er alls ekki alltaf) tekst mér orðið afbragðsvel að gjamma ekki og gera ekki ráð fyrir neinu, dæma engan og muna að allir eru að ganga í gegnum eitthvað sem getur haft mikil áhrif á hegðun þeirra og samskiptafærni.


Að hlusta gefur mér mikið því þegar við tölum endurtökum við það sem við vitum en þegar við hlustum lærum við eitthvað nýtt. Og þegar við lærum eitthvað nýtt hlöðum við okkur upp. Fáum inn ný og ferskari forrit í heilann og eigum auðveldara með að losa okkur við gömlu forritin sem eru kannski orðin frekar úrelt og byggð á venjum, hefðum og hegðun annarra eða okkar eigin gagnvart okkur fyrir langa löngu og á ekki lengur við.


Hægjum á, hlustum af athygli, endurspeglum það sem við heyrum og spyrjum spurninga sem leiða áfram og til árangurs en ekki til ágreinings og áfalla.


Nokkrar leiðir til að æfa góð samskipti:

  • Þegjum meira

  • Hugsum áður en við tölum

  • Spyrjum öflugra spurninga frekar en ímynda okkur, gera ráð fyrir og dæma

  • Endurspeglum samskiptin til að fyrirbyggja misskilning

  • Tölum meira um “Ég vil…. Mig langar…. Mér finnst…” frekar en “Þú ert….. Þú gerir….. Þér finnst….”

  • Leyfum öðrum að tala ótruflað - sérstaklega börnum og unglingum.

  • Tökum ekki öllu sem aðrir segja við okkur persónulega, mögulega er manneskjan í bullandi ómeðvitund og veit ekkert hvað hún er að segja. Það er hennar vandamál - ekki okkar.

  • Lækkum í sjónvarpi, símum og raftækjum þannig að við þurfum að æfa heyrnina.

  • Slökkvum á sjónvarpi, símum og raftækjum og hlustum á þögnina.

  • Tölum hægar og lægra.

  • Ekki flýta okkur í samskiptum.

Höfundur: Ágústa Margrét Arnardóttir

Meðstjórnandi Hæglætishreyfingarinnar á Íslandi



og hér:




239 views0 comments

Recent Posts

See All

Opmerkingen


bottom of page