top of page
Search

Óþarfa burður þessi samanburður


Ég sat um daginn í stofunni heima hjá mér með bók og las mér til ánægju. Það var ekkert sem ég þurfti að fara eða gera. Um leið áttaði ég mig á því að ég hefði ekki gefið mér þessa gjöf í nokkur ár. Ég hef ekki haft eirð í mér, því eitthvað samviskubit og óróleiki greip alltaf um sig þessu samfara. Þarna, í þessum einfaldleika, að þurfa ekki að fara neitt eða gera, kom fullkomin sátt við augnablikið og um leið eitthvað einkennilegt leyfi til mín um að ég má þetta bara. 


Líf okkar flestra er líf samanburðar. Það er óhjákvæmilegt að því stærri þátt sem samanburður á í lífi okkar, því minni aðgang höfum við að okkur sjálfum. Við töpum örlitlum hluta  af okkur í samanburðarkeppninni. Við gleymum jafnvel um stund hver við erum. 


Hæglæti getur gefið okkur þá stórkostlegu gjöf að fá til baka stærri hluta af okkur sjálfum. Við töpum okkur nefnilega í hvert sinn sem við missum okkur í hraða, streitu og samanburði. 

Mér finnst gott að spyrja mig spurninga eins og: Hvar í lífinu get ég náð til baka stærri hluta af mér? Er eitthvað sem má fara? Get ég minnkað veru á einhverjum samfélagsmiðlum? Eru einhverjar raddir sem ég hefði ef til vill gott af að heyra minna í? Er eitthvað í daglegri dagskrá sem má ef til vill bara fara? Hvaða fólk gefur mér best tækifæri til að sleppa öllum samanburði? 


Hvert og eitt okkar er magnað, við týnum bara sýninni á það í samanburðinum. Upplifum okkur jafnvel örlítið minni eða stærri, í samanburði við hina. Það er einhver óþarfaburður að bera að vera í samanburði. 


Að hægja á, getur gefið stærri glugga til að tengjast því sem gefur okkur mest og best. Mér er að lærast það smátt og smátt að eltingaleikurinn við þá hugmynd er oftast nær okkur en við höldum. Fyrir mér er tengingin nákvæmlega þar sem ég er, ekki stærri eða minni en neinn, ekki á leið inn í næsta augnablik og með fullt leyfi til sjálfrar mín um að þarna megi ég vera akkúrat núna.


Ragnhildur Birna Hauksdóttir  


59 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page