Aðventan er gengin í garð. Það er eitthvað dásamlega friðsælt og hæglátt við það eitt að aðventan sé gengin í garð. (Hér er tækifæri til að anda djúpt í magann og þakka fyrir að við fáum að njóta aðventunnar næstu fjórar vikurnar um það bil).
Að því sögðu og að loknum djúpum andardrætti, er rétt að vera meðvituð um, að eins og aðventan gefur yndislegt tækifæri til að hægja á og njóta skammdegisins með kertaljósum, ljúfri jólatónlist og notalegri fjölskyldu- og vinasamveru, þá er hún líka tími sem við erum mörg á þönum og í heilmiklu stressi.
Hluti af jólaundirbúningnum hjá mörgum er að börnin skrifa óskalista fyrir drauma jólagjafir. Mér finnst það falleg og skemmtileg hefð sem gleður þau og býr til eftirvæntingu og tilhlökkun, jákvæðar og fallegar tilfinningar.
Í ljósi þess að aðventan getur verið mörgum áskorun, því með henni fylgir gjarnan langur listi verkefna, viðburða og væntinga sem við stöndum frammi fyrir að uppfylla og sinna, væri ráð að við gerðum okkar eigin óskalista fyrir aðventuna.
Ég skal deila með ykkur hvernig minn óskalisti getur litið út.
Óskalisti Þóru fyrir aðventu 2024:
Djúp öndun reglulega yfir daginn
Knús
Samvera með eftirlætis fólkinu mínu
Áhyggjuleysi
Hófleg innkaup
Tónlist
Gleði
Dans
Meðvitund
Sjálfsmildi
Að geta sleppt tökum á óþörfum og óhjálplegum hugsunum
Hugarró
Hvernig lítur þinn óskalisti fyrir aðventuna út?
Gleðilegan fyrsta í aðventu.
Comments