Þögnin.
Svo vandfundin verðmæti í nútímasamfélagi.
Ég fór í banka um daginn. Sem er svosem ekki í frásögur færandi nema að ég fann að útvarpið var mjög hátt stillt í hinu opna rými, þar sem margir starfsmenn sátu og unnu.
Það var hvorki róleg né lágstemmd tónlist heldur svona ,,ERU EKKI ALLIR ROSALEGA HRESSIR” útvarp, á frekar hárri stillingu (allavega fyrir minn smekk og eyru). Og það hefði eflaust verið allt í lagi og kannski skemmtilegt fyrir stutta heimsókn, en ég var þarna í um klukkutíma og þetta fór að trufla mig töluvert.
Ég mátaði sjálfa mig í hlutverki þessa góða starfsmanns sem var að aðstoða mig.
Sem hlustar aktíft og á samskipti við viðskiptavini allan daginn. Sem einbeitir sér að nákvæmnisvinnu og útreikningum. Sem leggur sig fram um að veita góða þjónustu um viðkvæm og oft persónuleg mál, með útvarpið svona hátt stillt í öllu vinnurýminu allan daginn. Og mér var hugsað til allra annarra sem vinna í svipuðum aðstæðum, án þess að hafa nokkuð val um að skipta um stöð, hækka eða lækka eða á annan hátt stjórna vinnuumhverfi sínu hvað þetta varðar.
Ég gat ekki setið á mér að spyrja þjónustufulltrúann hvort ekki væri erfitt að vinna með útvarpið svona hátt og ég fékk hið óvænta svar:,,þetta er svo það heyrist ekki eins mikið á milli okkar” og benti í áttina að samstarfsfélaga sínum við hliðina.
Ég ætla að segja þetta aftur!
ÞAÐ VAR ÁKVEÐIÐ AÐ AUKA HÁVAÐANN TIL AÐ BÚA TIL NAUÐSYNLEGT NÆÐI!
Finnst engum nema mér þetta öfugsnúið?
Við sköpum opin rými og tökum í burtu veggi og skilrúm. Og til að allir heyri ekki allt, einkum viðkvæmar upplýsingar um fjárhag og persónulegar aðstæður, þá bara hækkum við í útvarpinu á móti. Í stað þess að frá upphafi skapa heilbrigt og heilsueflandi vinnuumhverfi sem myndi tryggja þetta nauðsynlega næði og vernda viðskiptavini og starfsfólk!
Auðvitað erum við misjafnlega viðkvæm gagnvart áreiti í umhverfi okkar, en ég leyfi mér að fullyrða að við erum mörg sem eru viðkvæm fyrir hávaða af ólíkum ástæðum. Uppsöfnuð streita og álag getur gert okkur veik, þreytt og ofurviðkvæm fyrir öllu áreiti, þar á meðal hávaða. Og mörg okkar höfum gengið í gegnum slík tímabil.
Ég man að hjá mér var eins og að það vantaði náttúrulegan fílter í heilann sem áður síaði vel út áreiti og hljóð. Ölll umhverfishljóð komu inn á sömu tíðni og fóru í einn graut. Ég tók út flest öll píp úr símanum og þoldi illa við á kaffihúsum með frussandi kaffivélum og postulínsglamri. Búðarferðir með sterkum ljósum og músík buguðu mig næstum því. Samtöl margra í hópi ollu mér vanlíðan og svimatilfinningu svo ég náði oft ekki að halda þræðinum. Þessi ofurviðkvæmni hefur gengið mikið tilbaka síðan þá, en hávaðaþröskuldurinn er þó lægri en áður. Og ég veit að við erum mörg í sömu sporum.
Og hvort sem við höfum brennt okkur út eða ekki, þá þurfum við öll að vernda orkuna okkar. Heilinn okkar er sífellt að vinna úr alls konar áreiti. Það að greina í sundur ólík hljóð í hávaðasömu umhverfi kostar aumingja þreytta heilann okkar auka orku, og hann fer í leiðinni á mis við nauðsynlega hvíld. Megum við kannski bara stundum hafa næði og hljótt? Þarf alltaf að vera hávaði í bakgrunninum alls staðar?
Hér áður fyrr skilst mér að helsta neikvæða áreitið og mengunarvaldurinn hefði verið vond lykt. Í dag erum við búin að útrýma vondu lyktinni að mestu, en hávaðinn hefur tekið yfir.
Svona vinnuumhverfi hefði allavega ekki virkað fyrir mig og marga aðra sem þjást af mikilli streitu eða eru næm gagnvart áreiti af öðrum ástæðum. Sífelldur hávaði er lúmskur streituvaldur. Vonandi mun skilningur okkar aukast á misjöfnum þörfum og þröskuldi fólks hvað varðar hávaða, þögn, hvíld og næði. Einkum á vinnustöðum.
Og ég vil trúa því að við getum hannað betri, einfaldari og heilbrigðari hljóðvistarlausnir en að hækka í útvarpinu til að skapa nauðsynlegt næði, ekki satt?
Comments