Ég hef reynt að halda mörgum boltum á lofti. Það hefur tekist og ég
hef klúðrað því. Þegar ég fór út í lífið vildi ég vera dugleg og
samviskusöm. Ég var svo samviskusöm að það fór snemma að valda mér
streitu og kvíða. Ég var konan sem var með allt á hreinu, með
fullkomnunaráráttu í farteskinu og reyndi mitt allra besta að halda
sem flestum boltum á lofti. Ég var svokölluð ofurkona og ofurmamma!
Líf mitt einkenndist oft af miklum hraða, klára þetta, gera hitt og
ljúka þessu. Þegar ég hafði svo lokið þessu þurfti ég að drífa mig í
að klára það næsta.
Það er líklegt að einhverjir tengi við þessi skrif og það að vera
fastur í neti samfélags og umhverfis, sem á það svo sannarlega til að
gera of miklar kröfur á okkur. Við höfum mörg upplifað það að vera
föst í hamsturshjóli og þurft að hlaupa sífellt hraðar og hraðar.
Mögulega erum við líka með koll sem segir okkur að gera betur og betur
og setur á okkur óraunhæfar kröfur. En þarf þetta endilega að vera
svona?
Svar mitt við þeirri spurningu er nei. Við getum stokkið út úr
hamsturshjólinu og sagt skilið við það. Við getum ráðið hraðanum í
okkar lífi og ráðið ferðalagi okkar sjálf. Ég hef gert það. Ég komst
ekki á þann stað á einni nóttu. Það var langt, strangt en sannarlega
magnað ferðalag. Fyrir meira en áratug áttaði ég mig á því að ég vildi
vinna í sjálfri mér og þroskast. Ég fór að æfa mig í að setja mörk og
fara eftir mínum vilja frekar en annarra. Á leiðinni valdi ég mér
ákveðin gildi sem ég hef reynt að fylgja. Á ferðalaginu fann ég
jafnframt að mikill hraði hentar mér ekki og leggst hreinlega illa í
mig. Ég æfði mig í að fylgja hjartanu mínu og standa með mér í erfiðum
aðstæðum. Ég lærði að hlusta á mikilvægar raddir líkamans og
sálarinnar. Enginn verður óbarinn biskup og þessi ferð gekk ekki
áfallalaust fyrir sig. En hún var sannarlega þess virði. Ég lærði að
stjórna ferðinni sjálf og velja það líf sem ég virkilega vil fyrir mig
sjálfa.
Þegar ég segi stjórna ferðinni sjálf þá á ég við að ég er
skipstjórinn í mínu lífi en ekki gömul mynstur, norm eða aðrir. Lífið
varð á einhvern undursamlegan hátt dýpra og litríkara eftir að ég
hægði á ferðinni. Ég fór að taka betur eftir, því það er nefnilega
þannig að þegar maður hægir á, þá fer minna framhjá manni. Ég fór að
stunda núvitund af kappi, þefa af blómum, faðma tré, vaða í köldum
lækjum og finna ferskan andblæinn strjúka kinnar. Ég lagði mig fram og
hlustaði betur á börnin mín og virkilega var á staðnum með þeim. Ég
lærði að forgangsraða og einbeita mér að því sem virkilega skiptir
máli. Sumt má sannarlega bíða og sumt er mikilvægara en annað. Ég
gerði útiveru að stórum þætti í lífi mínu og tengdi mig betur
náttúrunni. Ég áttaði mig á því að lífið er ekki sjálfsagt og hver
dagur er í raun mjög einstakur. Hvert augnablik er gjöf og fyrir það
ber að þakka. Ég fór að gefa litlu hlutunum í kringum mig sérstakan
gaum og sjá hvað veröldin er uppfull af litlum og stórum kraftaverkum.
Ég lagði mig fram um að vera meðvituð. Meðvituð um að það skapar
enginn minn veruleika nema ég sjálf og ef leiðin er grýtt þarf ég að
skoða mig sjálfa og mínar hindranir. Ég æfði mig í samkennd og að taka
sjálfri mér eins og ég er með öllum mínum kostum og brestum.
Ég er langt því frá fullkomin í mínu hæglæti. Ég berst enn við gömul
mynstur og raddir sem segja mér að flýta mér. En ég hef valið að vera
meðvituð. Meðvituð um að ég hef val hvernig ég bregst við. Það er
nefnilega það sem hæglæti snýst um. Að hafa þetta meðvitaða val í
lífinu. Val til þess að vera skipstjórinn, val til þess að taka
ákvarðanir, val til þess að velja aðstæður, val á samskiptum og val
til þess að taka ábyrgð á eigin líðan og heilsu. Hæglæti hefur
sannarlega verið mitt svar við hraða og streitu samfélagsins og
mótsvar gegn vanlíðan, kvíða, stressi og hraða í eigin lífi. Ég er
sannarlega þakklát að hafa gírað mig niður og stigið á bremsuna.
Það geta allir tileinkað sér hæglæti og það má útfæra það á ýmsa vegu.
Það er enginn ein rétt leið til hægara lífs og við erum sannarlega
ekki í samkeppni hvort við annað. Hver og einn þarf að velja sína leið
við ósinn og munið að hamingjan er ferðalag en ekki áfangastaður!
Sólveig María Svavarsdóttir
varaformaður Hæglætishreyfingarinnar á Íslandi
Meira um Sólveigu Maríu hér:
Og Sólveig María er með samfélagsmiðlana:
Comments