top of page
Search

Að festast í drullunni

Í gær festist ég í djúpri lægð. Tók dýfu. Ég týndist í tilgangsleysi. Ég tapaði mér í niðurrifi og blindni á gagnsemi mína.


Þessa dagana er ég að móta sýn mína og tilgang upp á nýtt. Ég er að virkja löngun inn í aðgerðir, tilfinningu og þrá inn í veruleika og framkvæmd. Ég er að uppfærast.


Það er spennandi ferli en líka sársaukafullt. Það er hálfgerð krufning sem á sér stað, ég kryf málin til mergjar, skoða tilgang minn og styrkleika eins mikið utan frá og ég get. Í því ferli blandast saman restarnar af gömlu mér við hálfuppfærðu mig og framtíðar-mig sem ég finn að ég er að nálgast.


Nýja ég er örugg og viss, mætir til leiks og er til þjónustu reiðubúin, þekkir virði sitt og kemur til að vinna verkefnin sem hún hefur verið fengin til að vinna, hún treystir ferlinu, hún veit að leiðin sem hún leiðir aðra inn í er leið lausna.


Gamla ég er hrædd, óviss, óörugg. Finnur ekki hver tilgangur hennar og gagnsemi er. Hvernig hún geti þjónustað og hjálpað. En þráir að hjálpa og verða að liði. Og að fá greitt fyrir það, svo vel að hún geti haft það drullufínt.


Núna er ég drullumall, blanda af gömlu og nýju. Gamla var ríkjandi í gær en nýja er aðeins sterkari í dag.


Í gær, í tilfinningalegu drullusvaði, gerði ég tvennt sem ég gerði áður aldrei sem hjálpaði mér upp úr eðjunni. Ég fór út að hlaupa og svo fór ég í sjóinn.


Undanfarnar 4 vikur hef ég hlaupið (eða hlabbað=hlauplabbað) 3svar í viku. Ég er að byggja upp nýju mig. Ég er að þjálfa huga minn og líkama upp í því að ég geti hlaupið. Það gengur, en það er áskorun og nokkuð erfiði. Ég þarf mikið að tala hugann og líkamann til svo þeir félagarnir haldi dampi og hætti ekki. Tilgangurinn minn með hlaupunum er að endast vel út ævina. Mig langar að vera glöð, spræk amma, en líka frábærlega frisk og fær að sinna framtíðinni og verkefnunum sem hún færir mér. (Og svo er ég líka að vona að ég geti borðað aðeins frjálslegar og leyft mér meira gúrm og samt haldið formi…). Ég geri engar væntingar til mín um árangur, vegalengd eða hraða. Það er algjört aukaatriði. Markmiðið er að halda út, hverju sinni, í gegnum hlaupaprógram á hlaupaappi sem ég er að nota. Ég finn að það er mjög mikilvægt fyrir mig að hlaupa í hæglæti og án keppni. Ég þarf að sýna líkamanum mildi og kærleika. Ég þarf að leyfa honum að fara í gegnum þjáninguna en ekki hafa hana af honum. Virðingarrík líkamsrækt. Ég vil ekki ofbjóða honum en ég vil hjálpa honum að gera eins og hann getur og þakka honum fyrir það. Ég er byrjuð að hlaupa. Í gær kom ég hálfgrátandi heim eftir hlaup því ég var í tilfinningalegu drullusvaði og hlaupin hjálpuðu mér að hleypa tilfinningaflæðinu í viðeigandi farveg.


Svo fór ég í sjóinn. Ég fór fyrst í sjóinn á afmælinu mínu fyrir tveimur árum, þá 45 ára. Mig hafði langað mjög lengi en var skíthrædd við kuldann, óöryggið og óvissuna. Ég hafði þó sterkan grun um að ég myndi þola kuldann vel og að hann myndi gera mér gott. Ég leit upp til þeirra sem ég þekkti og stunduðu sjósund. Mér fannst þau sýna gífurlegan styrk og dug, vera almennt bara mjög töff fólk. Og ég vildi vera svoleiðis. Þarna var samanburður að hjálpa mér. (Samanburður er ekki alltaf neikvætt fyrirbæri). Þau voru mér sterkar og jákvæðar fyrirmyndir. Í gær fór ég svo í sjóinn, fyrir hvatningu frá kærri vinkonu sem bauð upp í þann dans. Ég var með einhverjar hugmyndir í kollinum um hvort ég ætti að afþakka boðið, ég væri nú búin að hlaupa, og fara tvisvar í sturtu, ætti ég að fara í sjóinn og svo í þriðja sinn í sturtu? Ætti ég ekki bara frekar að vera heima og reyna að vinna úr þessu tilfinningasulli? Mér tókst að einfalda og fór í sjóinn. Það var mjög einfalt. Ég fór upp í bílinn, sótti vinkonuna og við keyrðum á áfangastað sem hún valdi. Við forum í sjóinn. Það var geggjað. Vá hvað þetta var dásamleg tilfinning og alltumvefjandi vellíðan. Við vorum góðar 20 mínútur í sjósullinu í drullusvaði, því botninn var leirugur og hálfgerð leðja. Ég fann að ég mátti ekki stinga niður fæti of fast og of lengi. Því þá gæti ég sokkið og festst. Ég gætti þess að tipla bara aðeins á tánum í leirnum og naut þess að finna vatnið leika um mig, ölduna stíga umhverfis mig og flæða með.


Í gær var áhugaverður dagur. Ég féll í drullupytt, festist í smá stund en steig ekki of fast niður fæti. Það er betra að tipla bara aðeins á tánum í pyttinum en leyfa sér ekki að sökkva langt eða dvelja of lengi í honum.


Í dag er nýr dagur. Ég veit ekki ennþá hvað verður. En ég ætla að halda áfram að skora mig á hólm og finna fyrir lífinu. Svo kemur í ljós hvað verður fyrir valinu. Lífið er drullumall, leikur einn. Stundum fer maður í smá fýlu og tilfinningaógleði og finnur svo gleðina á ný. Það má.


Svona er að taka eftir og fara meðvitað í hæglæti í gegnum djúpa dali.



163 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page