Ég átti mjög áhugavert innra samtal á leið minni heim í dalinn í gær. Ég var heldur búin á því eftir smá Kringluferð og önnur jólaerindi. Eins og stundum áður gerðist það að ég fór að upplifa tilfinningar um tómleika og tilgangsleysi. Slíkar hugsanir koma mun frekar þegar ég er þreytt og orkulaus.
Upp í huga minn komu ýmis orð sem spruttu úr skortshugsanahólfinu mínu. Ég fór að finna fyrir einhvers konar ógleði yfir því hve erfitt er að sjá tilgang með öllu tilstandinu í kringum jólahátíðina. Til hvers er þetta eiginlega? Fyrir hvern erum við að hamast þetta við að halda upp á hátíð sem fáir tengja lengur við? Hvers vegna erum við að kaupa gjafir og gefa, bæði með samviskubit yfir hvað það er lítið og líka hvað það er mikið sem við eyðum af peningum í þær? Hvað ef þiggjendur upplifa að við séum nísk og hvað ef ég er að eyða um efni fram og setja mig í streitu við að ná endum saman? Voðalega kostar allt mikið og voðalega get ég keypt eitthvað lítið.
Og svo líka æ… ég vona að það verði ekki mikill gestagangur um jólin og pressa á einhver jólaboð og hamagang. Þar sem enginn nær í rauninni að tengjast við aðra því það er svo mikið havaríið og lætin í kringum matseld og umbúnað í kringum tveggja tíma samveru með allt of mörgum í einu.
Já svona var innra samtalið framan af. Skröggur leit við. Eins og oft þegar ég er þreytt og tætt. Og ég hamast í hamsturshjólinu. Streitt, stressuð og kvíðin. Að gera of mikið og of hratt.
Eftir því sem ég keyrði lengra og nær sveitinni fór þetta að rjátlast af mér. Ég keyrði án hljóðs og leyfði mér bara að anda og vera í þögn. Ég keyrði á löglegum hraða, jafnvel á mörkunum að hafa verið þessi pirrandi týpa sem er fyrir í umferðinni, því hún fer of hægt. Það var notalegt og róandi. Þeir tóku fram úr sem urðu pirraðir og óþolinmóðir. Ég má fara rólega yfir.
Samferðarfólkið mitt var líka hljótt og hvíldi sig á leiðinni heim. Ég andaði í magann og slakaði á spennunni í líkamanum. Teygði svolítið á hálsinum og lagaði líkamsstöðuna. Og andaði.
Ég fór að fá upp í hugann litlar myndir af því sem gerir lífið fallegt. Börn. Blóm. Faðmlag. Fjöll. Vatn. Grænt. Ilmur. Kertaljós. Tónlist. Sköpun. Að leiðast hönd í hönd. Að lesa. Samtöl í meðvitund og sannri hlustun. Fallegur borðbúnaður. Góður matur. Að matast saman. Tunglið, sérstaklega í fyllingu eins og það var í gær þegar ég var að koma heim. Samvinna. Samvera.
Ég er á breytingaskeiðinu. Það er allt að breytast. Og breytingarnar eru undarlega óhagstæðar við fyrstu sýn. Líkaminn er að gildna. Hormónasveiflur og hitakóf. Svefninn er verri og ég sem hef lengi lifað á því að ég ætlaði að sofa þegar ég væri orðin gömul. Orkan óstöðug. Barnið mitt sem eftir er á heimilinu verður sífellt sjálfstæðara, sem er vitanlega ekki óhagstætt en það hefur áhrif á mitt daglega líf.
Ég er að fara inn í breyttan veruleika þar sem ég bráðum þarf ekki öllum stundum að vera til taks eða á vaktinni. Við það skapast rými. Holrými. Hvað gerist þá? Hvað geri ég við það?
Það er auðvelt að hræðast þau tímamót þegar börnin hætta að þurfa sömu þjónustu og áður. Hvernig ætla ég að fylla upp í tímann og rýmið sem myndast? Hvernig ætla ég að skapa lífið mitt þegar enginn þarf á mér að halda? Það eru áreiðanlega mjög margar konur sem upplifa samskonar tilfinningar á þessum breytingatíma. Öll mín fullorðinsár, eða svo gott sem, hef ég verið meira tengd því að þjónusta og vera reiðubúin fyrir börnin mín og aðra en sjálfa mig. Ég hef haldið aftur af mér og gætt þess að vera góð fyrirmynd. Kannski ekki verið alveg afslöppuð og óviðeigandi eins og ég annars hefði verið…, líklega er það best fyrir alla.
Ég segi meira tengd, því ég hef alls ekki verið ótengd sjálfri mér, því ég hef verið svo lánsöm að hafa ræktað sjálfa mig allan tímann. En hún er mjög áhugaverð sú umbreyting sem á sér nú stað, ég má slaka á á vaktinni og bara vera. Það er í senn hræðileg tilfinning tilgangsleysis og tómleika en líka algjörlega sturluð frelsistilfinning sem því fylgir.
En þar sem ég ók heimleiðis í gær hugsaði ég með sjálfri mér að nú væri tími til að velja hvernig ég fylli upp í rýmið mitt. Það rann upp fyrir mér ljós. Rýmið er kærkomið og spennandi.
Litlu myndirnar sem voru að bærast í huga mér, myndirnar af þvi sem gerir lífið fallegt, skýrðu fyrir mér og teiknuðu upp hver nýr tilgangur minn getur verið.
Ég ætla núna að lifa fyrir fegurðina. Fegurð hefur alltaf verið mér næring og innblástur, en nú getur hún haft enn meira vægi og tekið meira pláss. Nú verður fegurðin minn aðaltilgangur.
Ég ætla að tengjast fegurð, fallegri náttúrunni, fallegum stundum, fallegri tónlist, fallegum samskiptum, fegurð í matargerð, fegurð í sakleysinu, fegurðinni í ástinni, fegurðinni í fólki.
Ég ætla að sjá fegurð, heyra fegurð og snerta fegurð. Taka eftir fegurðinni og tengja mig inn í hana.
Fegurð virkjar með mér gleði og mjög jákvæða orku. Fegurð endurnýjar mig, jarðtengir mig og stillir strengina mína. Ég sé meira að segja fegurðina í breytingaskeiðinu, mýkri og þykkari útlínum.
Ég ætla að njóta þess að hvílast vel um jólin, gera lítið og njóta litlu fallegu hlutanna. Njóta samverunnar með fólkinu mínu og sjálfri mér. Einfalda lífið mitt og bjóða fólkinu mínu að undirbúa með mér, að við eldum saman, pökkum saman inn gjöfunum, þrífum saman og hjálpumst að við það sem við ákveðum saman að gera. Sumu má sleppa, velja annað í staðinn, eða ekki. Skreyta saman. Skapa fegurð , saman.
Fegurðin liggur í einfaldleikanum.
Ég er, mitt í þessum þönkum, djúpt þakklát fyrir að hafa kynnst hæglætinu og öllu sem það býður mér. Það er nefnilega svo mikil fegurð sem í hæglætinu er fólgin. Hæglætið hjálpar mér að sjá fegurðina og að skapa fegurð. Hæglætið hjálpar mér að lækka í dramarásinni þegar hún er farin að nálgast efri mörkin. Hæglætið minnir mig á að hvíla mig og endurnýja mig. Hæglætið hjálpar mér að staldra við, hægja á og skapa rými. Rými sem ég hef frelsi til að fylla með hverju því sem ég vil að verði. Fallegt, ekki satt?
Gleðilega hæglætishátíð á jólum.
Comentários