top of page
Search

Að hægja á huganum og kæfa katastrófhugsanir!

Rétt upp hönd sem er með ofvirkan huga, er komin á flug og æsir sig oft upp innra með sér út af einhverju sem er hvergi að gerast nema í hausnum á sér!


Sálfræðingur einn sagði einu sinni við mig að ég hefði miklar katastrófhugsanir.


"Öööh...hvað meinarðu? Eru þettta ekki bara venjulegar hugsanir? Hugsanir eins og að ég væri ekki að standa mig í lífinu? Að ég væri ekki nógu dugleg? Að ég gæti þetta ekki? Að ég væri að bregðast öðrum og svíkja fólk. Að ég ætti aldrei eftir að komast áfram í lífinu, og fleiri svona frekar niðurrífandi hugsanir. Er ég ekki bara ábyrg og dugleg að sjá fyrir hlutina skipuleggja og halda öllum öruggum? Eða hvað? Er hausinn á mér kannski að ýkja og búa til vandamál að óþörfu? Hugsa ekki allir svona?"


Nei, ég lærði að það hugsa víst ekki allir svona.


Og ég lærði að ég var líka að skapa sjálfri mér mikla streitu og eyða dýrmætri orku í svona hugsana ping-pong. Ja hérna!


Ég hef þurft að taka mikið til í hausnum á mér og fundið mín eigin varúðarmerki þegar hann er kominn á of mikinn hraða. Líkaminn er duglegri en áður að láta mig vita með ýmsri spennu, streitu og verkjum þegar hugurinn er kominn framúr restinni af líkamanum. Og ég er líka betri í að hlusta á þau skilaboð líkamans og grípa mig þegar ég er komin á flug.


Ég hef lært að ég þarf ekki alltaf að hlaupa á eftir of hröðum huga. Og bara af því að ég hugsa það, þýðir ekki að það sé satt og þýðir ekki að ég þurfi að bregðast tilfinningalega við því sem flýgur í gegnum hausinn á mér.


Mér fannst það hafa verið mín heilaga skylda að plana lausnir og búa til plan B yfir allt sem gæti farið úrskeiðis. Muna alla gömlu verkefnalistana, og búa til nýja. Hafa áhyggjur af börnum, foreldrum, sjálfri mér og framtíðinni. Rifja upp eitthvað sem gamalt, vandræðalegt móment sem ég vildi að ég hefði höndlað betur! Dæs, svo mikið að gera!


En einkum með hjálp hugleiðslu og núvitundaræfinga er ég betri í að sjá hugsanir mínar eins og kvikmynd sem hausinn á mér setur í gang af gömlum vana..."ég er ekki að standa mig í....bla bla bla… Ég þarf bara að vera duglegri í..." já ok, núna fór þessi rulla af stað. Ég get oftar spilað þessar katastrófsenur án þess að ég þurfi að fá hjartað í hálsinn, illt í magann og stresshormón í bullandi framleiðslu um líkamann sem brjóta niður í mér heila og líkama.


En við ættum ekki rífa okkur niður fyrir að hafa svona hugsanir því hugurinn og heilinn vilja bara halda okkur öruggum vernda okkur fyrir mögulegri hættu. Og í því hlutverki fer hann yfirleitt yfir strikið. Eins og foreldri sem vill vernda barnið sitt og bregst yfirdrifið við þegar það er í hættu. Þannig að stundum get ég sagt "takk heili fyrir að reyna að passa upp á mig og vernda mig. Þú ert að standa þig mjög vel í því, en kannski aðeins of vel. Það er ekki allt satt sem þú hugsar og ég þarf ekki að bregðast við öllu sem þú spilar fyrir mig."


Það gengur ekki alltaf en það gengur betur. Með æfingunni. Því þetta er eins og vöðvi sem hægt er að þjálfa upp. Hægt og rólega. Það hefst allt með hæglætinu. Líka að kæfa katastrófhugsanir og hægja á hröðum huga.


Ingibjörg Ólafsdóttir

Ritari hæglætishreyfingarinnar á Íslandi


Meira um Ingibjörgu hér:


Og hér finnið þið Ingibjörgu á samfélagsmiðlum:
234 views0 comments

Recent Posts

See All

Comentarios


bottom of page