Síðustu daga hef ég verið í miklum sköpunarham. Ég er í huganum að skipuleggja stofnun fyrirtækis. (Auðvitað er alrangt að segja frá þessu strax, því pælingarnar eru auðvitað á algjöru frum-byrjunarstigi og ég er ekki búin að segja upp í dagvinnunni og er ekki á leiðinni að fara að gera það. Ég elska það starf og það hefur gefið mér ótrúlega mikið)
Ég er að skapa vöruúrval og þjónustu sem ég ætla að bjóða upp á. Ég er að hanna og hugsa og er í ham.
Af hverju er ég að þessu?
Jú, mér finnst ég ekki vera að gera nóg, ekki þéna nóg, og finnst ég eiga að nýta lífið betur. Mig langar að vinna mér inn virðingu og gera gagn sem hefur raunveruleg áhrif til jákvæðra breytinga. (Einhvern veginn man ég aldrei eftir því sem ég hef áorkað og finnst ég ekkert vera að gera).
En af hverju vil ég hafa áhrif til breytinga?
Af því að ég held að það hljóti að þurfa að breyta heiminum og laga hann. Það hljóti að þurfa að bjarga fullt af fólki sem ráfar um í villu síns vegar. Ég hef hins vegar ekki gert eða skoðað rannsóknir sem styðja við þá tilgátu mína. Það er bara einhvern veginn það sem liggur í loftinu. Allir eru að brenna yfir og að keyra sig í kulnun.
En er það svona í raun og veru? Og af hverju er það?
Kannski erum við að brenna yfir af því að við erum öll svona upptekin af því að hugsa um hvað allt sé rosalega erfitt og að við séum ekki að gera nóg til að breyta því og bjarga. Er þetta kannski bara mest í hausnum á okkur?
Mig langar í raun miklu frekar að vinna með fólki og fyrir fólk sem þarf ekki að bjarga eða hjálpa. Ég held raunar að það eigi við um alla. Ég þarf engum að bjarga og fæstir vilja láta bjarga sér. Þeir vilja helst bara sjá sem mest um sig sjálfir. Og afþakka líklega mína óumbeðnu hjálp.
Mig langar sem sé að vinna með frjálsu fólki sem hefur sleppt tökum á áhyggjum og ótta.
Mig langar að vinna með fólki sem er til í að fara inn í sköpunarvinnu til að búa til þjónustu og vörur sem eru skemmtilegar, auka velsæld og hjálpa okkur að halda áfram að leika okkur út lífið.
Hvar er svoleiðis fólk að finna? Ef þið eruð það fólk nennið þið þá að senda mér dm?
Ég er leitandi og verð það sennilega alla ævi.
Ég er sennilega í einhverri miðaldurskrísu og þarf að finna mér nýjan tilgang nú þegar börnin eru orðin nær sjálfbjarga.
Svo langar mig alltaf undir niðri að vera rík og fræg. (Djöfull (afsakið orðbragðið) langar mig að hafa meira á milli handanna og þurfa ekki alltaf að kyngja kvíðakögglinum í hálsinum þegar mig eða fjölskylduna mína langar að gera eitthvað eða kaupa eða eignast eitthvað.)
En mig langar samt rosa mikið að vera Dalai Lama, vera alltaf glöð og anda bara og þurfa ekkert nema sængurverið mitt að klæða mig í.
Svo langar mig að finna jafnvægi og vera í núvitund og sátt og þakklæti fyrir það sem ég hef og ekki fara fram á meira en ég þarf.
Dæs….
Ég er leiðtogi. Það er mér algjörlega eðlislægt. Því þarf ég ekki að afneita og ég þarf ekki að bæla þá meðfæddu hvöt. Það er jákvæður eiginleiki, þó ég hafi einhvern veginn fengið þau skilaboð eða lært einhvers staðar að ég ætti ekki að trana mér fram og þykjast vera eitthvað. Ég hef frumkvæði. Ég brenn fyrir að skapa velsæld í heiminum. Ég er bjartsýn og ég trúi á fólk. Það ólgar í mér breytingaorka. (Kannski er það bara komandi breytingaskeið sem er að gera mig kreisí…)
En svona í alvöru, rosalega langar mig mikið að vinna í góðu teymi. Ég er samt rosa mikið að læra á teymisvinnu. Ég tek svolítið mikið yfir alla teymisvinnu og þarf að passa mig svakalega að kaffæra ekki aðra. Mér finnst erfitt að halda aftur af mér. Ég veit það þó að það hafa allir brjálæðislega mikið fram að færa og það er svo mikið gildi í því að hlusta á allar raddir og sjóða svo saman einhvern frábæran kokteil. Þarna er ég rosa mikið að læra og reyna að tileinka mér hlustun og að vera verkefnastjóri sem leyfir teyminu að skapa en halda bara utan um fræin sem skapast og sá þeim í góðan jarðveg.
Verkefnin sem mig langar til að við leysum eru sem dæmi: Hvernig fá allir nóg af peningum til að lifa góðu og sjálfbæru lífi? Hvernig losnum við við ótta og ofbeldi úr samfélaginu? Hvernig hættum við að þurfa að skapa ótta og ólgu í samfélaginu? Hvernig hættum við að vera hrædd við hvort annað? Hvernig hættum við að halda aftur af okkur og halda að við getum ekki lagt eitthvað af mörkum til að leysa verkefnin?
Svo uppgötva ég allt í einu að ég er komin með alveg magnaðan farveg fyrir allt þetta. Hæglætishreyfingin er orðin til. Þetta er komið. Ég missti bara aðeins sjónar á því. Ég gleymdi mér. Fór fram úr mér. Fókusinn fór. Og svo stillti ég mig inn á öndunina, ég hægði á hugsuninni.
Hæglætishreyfingin er farvegur fyrir jákvæðar breytingar í þágu velsældar samfélagsins. Við erum kannski öll með þessa ólgandi orku sem þarf að finna farveg og verða að gagni. Hana getum við virkjað og við getum átt samtal um jákvæðar breytingar í hæglæti og sjálfbærni til framtíðar. Eruð þið með?
P.s. kannski stofna ég samt líka fyrirtæki
Comments