Að njóta augnabliksins
- Hæglætishreyfingin á Íslandi
- Mar 23
- 3 min read
Þegar ég sest við eldhúsborðið og fer að skrifa um hæglæti og tengsl þess við að upplifa kvíða við að missa af viðburðum (e. fear of missing out) og ánægju við að missa af viðburðum (e. joy of missing out), þá kemur lagið Gleðibankinn í huga minn:
Tíminn líður hratt á gervihnatta öld
Hraðar sérhvern dag, hraðar sérhvert kvöld
Ertu stundum hugsandi yfir öllum gulu miðunum
Þú tekur kannski of mikið út úr Gleðibankanum
Á hæglæti eitthvað sameiginlegt við Fomo? Hugtökin hæglæti og Fomo eru andstæður. Hæglæti snýst um að hægja á og njóta augnabliksins, á meðan Fomo felur í sér að einstaklingur getur upplifað kvíða yfir því að missa af einhverju spennandi eða áhugaverðu. Í hinum fullkomna heimi væri frábært að sækja þá alla en eins og lagið Gleðibankinn segir þá líður tíminn hratt á gervihnattaöld.
Hugtakið Fomo er skilgreint á þann máta að það eitt að upplifa kvíða við að missa af spennandi atburðum getur m.a.haft þau áhrif að einstaklingur upplifir aukna streitu, óánægju með sjálfan sig, einbeitingarskort og minna sjálfsálit, sér í lagi þegar fólk er að bera sig saman við aðra á samfélagsmiðum. Þegar og ef einstaklingur eyðir miklum tíma á samfélagsmiðlum og verður áhyggjufullur yfir því að missa af einhverju, getur það líka haft neikvæð áhrif á svefninn og leitt til þreytu. Mörg okkar er alltaf „online“ og erum virk í samtölum við aðra en þrátt fyrir það eru einhver okkar að upplifa einmannaleika og jafnvel einangrun.
Hvernig getum við verið sátt við að missa af viðburðum og á sama tíma liðið vel? Ég er án efa ekki sú eina sem hefur hugsað „ohhh ég hefði verið svo til í þetta“ en lífið er jú stundum þannig að tími gefst ekki í allt sem hugurinn girnist. Ég veit ekki með þig kæri lesandi en ég hallast meira og meira að því að leyfa mér að líða betur, finna mögulega gleði og ánægju við að missa af ákveðnum viðburðum og leggja áherslu á sjálfsrækt í staðinn fyrir að vera leið yfir að missa af einhverju spennandi. Hér komum við inn á andstæðuna við Fomo, sem er hugtakið Jomo eða joy of missing out.
Það má halda því fram að hæglæti og jomo séu systrahugtök. Með iðkun Jomo þá er hægt að draga úr áhrifum Fomo með því að finna gleði og ánægju við að missa ákveðnum viðburðum og huga frekar að sjálfsrækt, vitund, að takmarka notkun samfélagsmiðla og leiða hugann að því hvernig þú vilt haga lífi þínu. Meðvituð ákvörðun um hvað þú vilt taka þátt í og njóta þess að vera ekki alltaf upptekin(n) eða að vera undir félagslegum þrýstingi að taka þátt í öllu getur hjálpað fólki við að meta hvað það er sem skiptir í máli í lífi þeirra. Eða eins og lagið segir.. lífsgleðin í brjósti.
Ávinningur af Jomo er talin vera margvíslegur t.d. jákvæð áhrif á líkamlegt og tilfinningalegt heilbrigði, efling samskipta á milli fólks og styrking einbeitingu rétt eins og iðkun hæglætis. Leiðir til að njóta sín betur geta falið í sér að velja athafnir sem eru þér mikilvægari, huga frekar að gæðum en magni þess sem þú gerir og síðast en ekki síst að draga úr því að bera þig saman við aðra á samfélagsmiðlum.
Með því að tileinka okkur hæglæti þá getum við notið þess sem við höfum án þess að bera okkur saman við aðra. Kæri lesandi, næst þegar þú kemst ekki á viðburð einhverra hluta vegna, prófaðu að finna ánægju í staðinn fyrir að rífa sjálfan þig niður.
Comments