top of page
Search
Writer's pictureIngibjörg Ólafsdóttir

Af hverju er erfitt að hægja á?

Ég var var 44 ára gömul þegar ég lærði að ég ætti markvisst og meðvitað að finna leiðir til að hvíla mig og slaka á ef ætti að halda heilsunni.

,,Hvíla mig? Hægja á? Spara orkuna? Gera eitt í einu? Má það bara?” hugsaði ég? ,,Er það virkilega nauðsynlegt? ,,Á ég ekki að gefa meira í heldur en gefa eftir?” ,,Og hvernig í ósköpunum geri ég það? spurði ég sjálfa mig.


Það var kannski betra seint en aldrei að læra svona mikilvægan hlut um eigin frumþarfir, komin á miðjan aldur. En ég hreinlega skildi það ekki og kunni það ekki. En þó þetta hljómi mjög svo sjálfsagt, þá var það mér mikið aha augnablik sem breytti á dramatískan hátt viðhorfum mínum til sjálfrar mín og annarra.


Í kjölfarið hef ég lært, talað og skrifað um streitu, hvíld, slökun og mikilvægi þess að hægja og finna sjálfbæran takt í tilverunni á samfélagsmiðlum í nokkur ár, en SAMT finnst mér þetta ennþá erfitt. Það er erfitt að búa til nýjar tengingar, nýjar hugsanir, nýjan ramma til að lifa innan. Nýja hugmyndafræði sem snýst ekki bara um að ,,vera dugleg, afkastamikil, ósérhlífin” og allt þetta.


Þó ég hafði oft á lífsleiðinni misst niður orkuna og ekki getað valdið þeim kröfum sem ég setti á mig sjálf og fannst að samfélagið setti á mig líka, þá fylgdi því mikil skömm. Mér datt aldrei í hug að líkaminn væri að gefa einhver skilaboð sem mér bæri að hlusta á og virða. Það hvarflaði ekki að mér.


Ég eins og margir hafa keyrt út af veginum og klesst á vegg. Var á of miklum hraða, með þyngri byrðar í fanginu og tilfinningalífinu en ég réð við, með mikið rof milli andlegrar líðan og líkamlegrar líðan og skildi svo ekkert í því hvernig í ósköpunum batteríin mín tæmdust á ákveðnum tímapunkti og líkaminn fór að gefa sig.


Hæglæti er skynsamlegt og nauðsynlegt á tímum aukins áreitis, neyslu og hröðunar á flestum sviðum samfélagsins. Ekki hafa bara kröfurnar um afköst og framleiðni aukist í atvinnulífinu heldur á flestum sviðum samfélagsins, svo sem uppeldi, neyslu og tómstundum. Hæglæti hljómar svo lokkandi og mikill lúxus eiginlega. Ætti að vera svo auðvelt!


En af hverju finnst mér þá svona erfitt að hægja á? Af hverju er svo auðvelt að sogast í endorfín og dópamínkikkið af hraðanum, keyra sífellt upp streitukerfið sem túlkar hraða sem ,,hættuástand”, þar til öll orkan fer í að halda bílnum á veginum og ég sé ekkert fyrir utan rörsýnina sem skapast þegar við erum á miklum hraða.


Ég held að það sé meðal annars út af því að verkefnin eru endalaus, áreitið er mikið og ég er ekki alltaf með mín gildi á hreinu um hvað er mikilvægt og hvað ekki. Ég reyni því að grípa alla bolta sem er kastað í mína átt þó svo að ég eigi þá ekki einu sinni alla sjálf.


Svo held ég að við förum oft í svolitla vímu af þessari fölsku orku sem mikill hraði og streita gefur okkur. Hraði gefur ákveðið kikk. Streituhormónin okkar, kortisól og adrenalín t.d. gefa stutt orkuskot sem auðvelt er að blanda saman við raunverulega, endingargóða orku.


Það er líka erfitt því mörg okkar erum að forrita okkur sjálf upp á nýtt. Við erum alin upp í ákveðinni menningu þar sem vinnusemi og afköst voru mikilvæg gildi og illa talað um ,,letingja". Okkur var kennt að við ,,gætum hvílt okkur þegar við værum dauð". Það hefur haft áhrif á okkar innra samtal og samband við okkur sjálf. Og þá er stutt í hina innri gagnrýni og við erum fljót upp með svipuna á okkur sjálf ef við leyfum okkur að vera ,,löt”. Að tala við okkur sjálf af mildi og góðmennsku krefst tíma, þjálfunar og þolinmæði.


Ein ástæða enn af hverju okkur finnst erfitt að hægja á er að mörg okkar höfum hreinlega ekki lært nógu mikið um okkar eigin líkama og höfum ekki lært að líffræði okkar setur okkur mörk. Okkur hefur verið kennt að umgangast líkama okkar eins og vél, að við getum endalaust bætt og bætt við okkur, aukið afköstin, gert margt í einu, nýtt heilann betur. Okkur hefur meira að segja verið talin trú um að við notum einungis 10% af heilanum okkar. Það fær fær okkur til að trúa því að við séum ekki að nýta okkar eigin getu og hæfileika, við séum ófullkomin og þurfum sífellt að betrumbæta okkur. Það getur verið mikill streituvaldur. Við getum vissulega lært heilmikið og búið til ótal nýjar taugatengingar. En eina skiptið sem ákveðin svæði í heilanum eru ónotuð er þegar heilaskemmdir og sjúkdómar hafa eyðilagt þessi svæði.


Við erum líka að læra meira og meira um mikilvægi þess að hafa jafnvægi milli virkni- og sefkerfis taugakerfis okkar. Að í sefkerfinu (parasympatíska hlutanum) sem er stundum kallað ,,rest and digest” eigi sér stað mikil endurnýjun og endurheimt. Við erum að læra um mikilvægi svefns, og virkrar hvíldar sem mikilvægs hluta heilbrigðs lífs. Slökun og hvíld er ekki síður mikilvægari en hreyfing og hollt mataræði.


Og síðast en ekki síst, þrátt fyrir að við séum búin að forrita okkur upp á nýtt og búin að læra um mikilvægi hvíldar og slökunar, þá kunnum við hreinlega ekki að hvíla okkur. Að hvíla sig í vöku og virkni, og virkja sefkerfi taugakerfisins, er líka að ,,gera eitthvað”. Ég hafði aldrei hugsað um athafnir út frá því hvort þær gæfu mér orku eða tæmdu orku. Hvort ég væri spennt með samanbitna kjálka, helst að reyna að gera margt á sama tíma. Eða hvort ég gerði hlutina á afslappaðan hátt, í flæði, núvitund og meðvitund.


Og þetta flækist líka aðeins því hæglæti er ekki ein stærð fyrir alla. Hvíld og slökun fyrir einn getur verið streituvaldur fyrir einhvern annan. Þannig að hæglæti snýst mikið um að þekkja okkur sjálf, vera tengd og í meðvitund við eigin líkama og líðan. Og þar hef ég, og mörg okkar, fengið litla þjálfun í. Við hreinlega kunnum þetta ekki. Ég hef að mestu leyti búið í hausnum á mér og verið mjög aftengd restinni af líkamanum.


Mörg okkar eru alin upp í menningu með önnur ríkjandi gildi og aðra þekkingu en er til staðar í dag. Viðhorf okkar og venjur eru þannig ekki alveg okkur að kenna heldur. Þekkingin þróast og breytist. Við vitum margt í dag sem við vissum ekki þá. Hraði, afköst, álag, bæling og sjálfsafneitun voru okkur kannski mikilvæg bjargráð á einum tímapunkti, en ekki alltaf til góðs í öllum aðstæðum endalaust. Og nú þegar við vitum betur þá þurfum við að gera betur.


Mér finnst hæglæti lokkandi tilhugsun, eitthvað til að stefna að, samt vitandi það að ég verð aldrei búin að ,,ná því” alveg. En það er gott mótvægi við hraða og kröfur samfélagsins. En það er ekki auðvelt. Hæglæti getur krafist þess að við þurfum að forrita okkur sjálf upp á nýtt, þurfum að læra um mikilvægi þess að hægja á í okkar innra og ytra lífi. Og við þurfum að læra aðferðir og tækni til að hægja á svo við náum að vera vakandi og meðvituð á ferðalagi lífsins, og keyrum ekki út af með tilheyrandi braki og brölti.


Einfalt en ekki auðvelt.


Gangi okkur öllum vel á hæglætisferðalaginu framundan!

168 views1 comment

Recent Posts

See All

1 Comment


Ooo hvað þetta er góður pistill <3 Takk fyrir. Já hæglætið er verkfæri sem nýtist okkur en ekki skóli sem við útskrifumst úr. Við þjálfum okkur smám saman í notkun þess, í að grípa okkur oftar og einmitt taka eftir því að kjálkinn er herptur og stífur. Nýta þá tækifærið og slaka á honum og draga andann dýpra. Góð áminning, takk <3

Like
bottom of page