Þegar ég geng á fjöll, hef ég þann sið að taka eitt skref í einu. Anda og vera meðvituð um öndunina. Þegar ég finn of mikla þreytu þá hvíli ég mig. Ég stoppa og staldra við þar til öndunin hefur róast og ég er ekki eins móð. Þá held ég aftur af stað, og skyndilega virðist vegalengdin framundan styttri. Þegar ég hef hvílt mig og jafnað mig, virðist leiðin framundan styttri og auðsóttari. Með þessu móti tekst mér að gera það sem ég elska einna mest, að fara upp á fjöll, njóta þess að horfa yfir landið, sjá umhverfið frá öðru sjónarhorni og upplifa aðdáun og undrun yfir fegurð náttúrunnar. Svo er tilfinningin sem fylgir því að komast á toppinn eða þangað sem stefnt var að, notaleg.
Hið sama gildir um öll verkefni lífsins. Það er notalegt að ljúka verkefnum.
Nú orðið, tekst mér oft að beita sömu aðferð gagnvart öðrum verkefnum. Þegar ég er of þreytt og útkeyrð, virðast verkefnin mér ofviða og ég finn að ég ræð ekki við að vinna mig í gegnum þau, ég get ekki meira í bili. Nú er ég svo lánsöm að ég veit orðið að það þýðir ekki að ég muni ekki klára þau, það þýðir aðeins það, að ég geri það ekki núna. Því núna þarf ég hvíld. Þá leyfi ég mér að hvíla mig, legg verkefnin til hliðar í bili, því ég veit að ég ræð betur við þau þegar ég kem úthvíld að þeim.
Færnin að finna hvenær er komið nóg, var mér að öllum líkindum meðfædd. Ég held að öll ungabörn fæðist með færnina til að finna að nú sé kominn tími til að hvílast. Þau láta vita með því að gráta eða gefa frá sér kvörtun í einhverju formi. Eða einfaldlega með því að sofna.
Ég held sem sagt að ég hafi haft þessa færni. Svo gerðist það sem oft gerist, að umhverfið fór að hafa áhrif á færnina. Umhverfið mitt þjálfaði mig í að leiða færnina til að finna hvenær er komið nóg hjá mér, til að halda áfram, gera svolítið meira, ekki hætta alveg strax, ekki gefast upp, hamast fram í síðasta blóðdropa. Að ganga svo nærri mér að klára hleðsluna að fullu. Að segja alltaf já, ekkert mál. Að skapa alltaf leiðir til að verða við öllum beiðnum og bónum. Að keppast við að gera öllum til hæfis og vera öllum góð. Að vera nóg, nógu dugleg, nógu flink og nógu klár. Þannig þjálfaði lífið mig í því að setja meiri fókus á hvað umhverfið mitt gæti þurft frá mér í stað þess að kenna mér að athuga alltaf fyrst hleðsluna á mér og uppfylla eigin þarfir áður en ég virkjaði þjónustuverið, mig.
Auðvitað er fegurð í því fólgin að veita heilbrigða þjónustu, að geta verið til staðar fyrir fólkið sitt. Það er þó ekki smart að sleppa því að rækta sjálfa/n/t sig og kynnast sjálfum sér, til þess að græja eitthvað fyrir einhverja, laga eitthvað, redda einhverju fyrir aðra. Með því að sleppa rækt við sjálfan sig, missir maður af tækifærum til að skapa sér sína eigin sanna gleði, sína eigin lífshamingju. Þá er of miklu fórnað fyrir velsæld annarra.
Með því að hægja á og hlusta á huga og líkama, getum við stigið eitt skref í einu og valið að hvíla þegar við þurfum. Oftast er ekki neyðarástand og það er ekki verið að bíða eftir að við björgum einhverju. Stundum og yfirleitt er enginn að pæla í því hvort við séum ekki örugglega að fara að hringja, klára, redda, bjarga eða græja eitthvað fyrir einhvern. Ég þarf reglulega að minna sjálfa mig á að það er bara allt í lagi, með flest. Ég þarf ekki að vera á taugum yfir því hvort einhver kunni að hafa þörf fyrir eitthvað frá mér.
Heimurinn snýst áfram, þó ég fái mér kríu, á fjalli.
Njótið þessa dags í hæglæti.
Comentários