top of page
Search

Enginn þakkar þér þegar þú ert komin í þrot

Updated: Apr 28, 2021

Undanfarin tvö ár hef ég talað við fjölmarga í gegnum miðilinn minn Streita-kulnun-hvíld, sem eiga það sameiginlegt að þjást af sjúklegri streitu, örmögnun og ýmsum afleiðingum of mikils álags yfir langan tíma. Og ég hef sjálf upplifað slíkt ástand. Flestir eiga það sameiginlegt að ástandi þeirra fylgir mikil skömm, skilningsleysi og feluleikur.


Hvernig má það vera að streita og álag séu svona mikil skömm þegar þetta er sífellt stærri orsök langvarandi heilsubrests, veikindafjarveru og jafnvel örorku? Höfum við efni á að að horfa sífellt framhjá þessu sem afurð þess samfélags sem við höfum skapað og kenna sífellt einstaklingnum um að hafa bara ekki “verið nógu duglegur.”


Streita er lífeðlisleg viðbrögð líkamans við ýmis konar álagi. Við erum byggð með ótrúlega fullkomið kerfi sem hannað er til að vernda okkur gegn hættu og gefa okkur kraft og orku til að standast alls konar álag.


En við erum bara gerð til að setja þetta kerfi í gang stuttar stundir og við þurfum löng hvíldartímabil inná milli. Og í nútímalífi eru hlutföllin yfirleitt öfug. Hvíldin verður of lítil og virknin og streitan of mikil, og streitan verður okkur þannig neikvæð og fer að valda ýmis konar usla í líkamanum. Áföll, einkum í æsku, geta líka sett þetta innra streitukerfi okkar úr jafnvægi og það getur einhvern veginn “festst á rangri stillingu.”


Samkvæmt grein í Læknablaðinu eftir geðlækninn Ólaf Þór Ævarsson lýsir sjúkleg streita, (eða það sem við í daglegu tali köllum oft “burnout”) sér á eftirfarandi hátt:

“Hamlandi ofurþreyta með minnkuðu frumkvæði, skorti á úthaldi eða óeðlilega mikilli þörf fyrir hvíld. Vitrænar truflanir með minnistruflunum og skertri einbeitingu eru mjög áberandi. Lækkað álagsþol. Tilfinningalegt ójafnvægi eða pirringur. Svefntruflanir. Truflandi líkamleg einkenni eins og stoðkerfisverkir, hjartsláttaróþægindi, meltingartruflanir, svimi og viðkvæmni fyrir hávaða og áreiti. Sjúkdómsgangur er oft langdreginn og sjúkleg streita greinist á ólíkum stigum. Aðdragandinn getur verið nokkur ár með breytilegum styrk einkenna og að lokum skyndilegri versnun þegar alvarlegustu stigum er náð með mikilli vanlíðan og skerðingu á vinnufærni.” https://www.laeknabladid.is/tolublod/2016/10/nr/6032


Líf mitt er svosem ekkert óvenjulegt eða sérstakt. Áföll og álag mitt í lífinu er ekkert meiri eða alvarlegri en annarra. En ég var illa tengd líkama mínum og kunni ekki að hlusta á skilaboð hans. Ég bjó bara í hausnum og var með langan lista af kröfum, væntingum og hugmyndum um hvernig ég “ætti” að vera og hvað ég “ætti” að gera .


Ástand mitt má rekja til mikils álags í vinnu í þrjú ár, en einkum síðustu 18 mánuðina á undan, stjórnunar-, samskipta- og skipulagsvanda, mikilla breytinga, uppsagna starfsfólks og fleira. Sem og andlegra krefjandi verkefna með samfélagslega umdeildan málaflokk. Mikils álags heima fyrir í mörg ár. Lítils baklands og stuðnings þar sem ég bjó í útlöndum með manni mínum og börnum okkar fjórum, almenns kvíða og áfalla, m.a. í æsku, innhverfs persónuleika, “imposter syndrome” (blekkingarheilkennis) og ýmislegs annars. Ekkert óvenjulegt eða óeðlilegt í lífi giftrar, miðaldra, margra barna móður sem reyndi að gera “allt”. Reyndi að halda mörgum boltum á lofti á sama tíma, með úreltar hugmyndir og óeðlilegar kröfur í eigin garð, þar til blaðran tæmdist og batteríin kláruðust og nokkur ár fóru í nauðsynlega uppfærslu og endurforritun á líkama og huga.


Sjúkleg streita, kulnun eða burnout, lýsir sér meðal annars sem mikið orkuleysi og lélegt líkamlegt og andlegt úthald. Mér fannst eins og ég “þyrfti bara að vera duglegri” að virkja mig úr þessari deyfð og orkuleysi. En ég lærði að lækningin og meðferðin við sjúklegri streitu var ekki að gefa meira í, heldur þvert á móti að læra að hlusta, læra að hægja nógu mikið á mér til að heyra hvað líkaminn segir, læra að hvíla mig, læra að spara orkuna, draga úr streitu og finna nýtt jafnvægi í lífinu með aukinni hvíld og hægari takti í tilverunni.


Þar hefur t.d. útivera, náttúran, handavinna, hugleiðsla, núvitund, jóga-nídra og öndunaræfingar verið hjálpleg, plús mikill svefn. “Vakandi hvíld og sofandi hvíld er lækningin” sagði læknirinn minn alltaf. Jú vissulega tók ég lyf um tíma við að hjálpa til við svefn, kvíða og vanlíðan en það var hjálpartæki, hækja, ekki lækningin sjálf.


Það er ekkert að okkur fyrir að líkami okkar gefi undan of mikilli streitu yfir of langan tíma. Það hefur ekkert að gera með hversu dugleg eða sterk við erum. Hann er ekki gerður fyrir að starfa þannig. Hann er gerður fyrir streitu og álag, en líka gerður fyrir mun lengri og fleiri hvíldarstundir inn á milli en nútímalíf veitir oftast. Allir geta lent í sjúklegri streitu ef við erum ekki meðvituð og skiljum ekki hvernig við fúnkerum.


Við þurfum öll að gæta að taktinum í tilverunni. Við þurfum öll að skilja að það er ekkert að okkur fyrir að þurfa að hægja á okkur andlega og líkamlega, oft og reglulega. Þvert á móti er það okkur hollt og heilbrigt og er mikilvæg forvörn og meðhöndlun gegn þessum streitufaraldri sem ég leyfi mér að fullyrða að gangi yfir samfélag okkar og sendir sífellt fleiri og fleiri í langvarandi heilsubrest og jafnvel örorku.


Því það þakkar okkur enginn þegar bensínið er búið og þrotið orðið staðreynd.

Virkni og hvíld, virkni og hvíld. Það er takturinn sem skiptir máli.


Enginn sími þolir að láta hlaða niður endalausum smáforritum án þess að þurfa að kæla sig niður og hlaða batteríin inná milli. Enginn bíll þolir að keyra í fjórða eða fimmta gír án þess að þurfa að hægja á sér inná milli. Hið sama á við um mig og þig.


Hvernig hvílir þú þig og hægir á í þínu daglega lífi?


Ingibjörg Ólafsdóttir

Ritari hæglætishreyfingarinnar á Íslandi


Meira um Ingibjörgu hér:


Og hér finnið þið Ingibjörgu á samfélagsmiðlum:730 views0 comments

Recent Posts

See All

Comentarios


bottom of page