top of page
Search

Er hæglæti fyrir alla?

Fyrir nokkrum árum síðan kom sá tímapunktur í lífi mínu að ég ákvað að leita leiða til að lifa á meðvitaðri máta og draga úr áhrifum álags á líkama og huga. Lífið er jú stundum eins og úfinn sjór, margir atburðir á sama tíma sem krefjast úthalds (líkamlega og andlega), einbeitingar, þolinmæði, orku og tíma. Ég byrjaði á að því að spyrja tveggja spurninga: Hvert er fyrsta skrefið til að lifa á meðvitaðri máta í hæglæti og er það aðgengilegt fyrir alla? 


Til að svara fyrstu spurningunni, þá þarf maður að setja sig í ákveðnar stellingar og skoða allt sem er í gangi, sem getur verið yfirþyrmandi til að byrja með. Gott er að skrifa niður á blað, hvað er um að vera og hvernig líðan er. Listin að skrifa niður hugsanir sínar og hvernig líðan er, er ein leið til að átta sig betur á hvar hæglæti getur komið inn og hvort það sé þegar þar í einhverri mynd. Það hjálpar líka að skoða hvað aðrir hafa verið að gera.


Er hæglæti aðgengilegt fyrir alla? Svarið er já. Að tileinka sér hæglæti felur í sér að taka ákvörðun um að breyta hugarfari sínu og vinna í sjálfum sér að staðaldri. Vert er að taka fram að breyting á hugsunarhætti tekur tíma og því er þolinmæði gagnvart sjálfum sér og öðrum  mikilvægt. Birtingarmyndir hæglætis eru margvíslegar sérstaklega þegar horft er til þess að líf hvers og eins er einstakt. Hér er um að ræða dýrmæta vinnu af hálfu þess aðila sem vill draga úr álagi. Hér eru nokkur atriði sem hæglæti getur hjálpað til við: 


  • Að dvelja í núvitund, vera vakandi og með athygli á núlíðandi stund.

  • Að heyra og hlusta

  • Að anda og njóta

  • Velja meðvitað að takmarka streitu.

  • Draga úr neyslu.

  • Taka sér minna fyrir hendur og gera færri hluti í einu. 

  • Gefa sjálfum sér svigrúm til að vera, fara hægar yfir. 


Hefur þú, lesandi góður, velt fyrir þér hvernig birtingarmynd hæglætis er hjá þér, t.d. þegar þú ert að gera eitthvað heima fyrir, njóta þess að vera með sjálfum þér, börnum, fjölskyldunni eða vinum, hreyfa þig í náttúrunni eða vinna verkefni? 


Að lifa á meðvitaðri máta og iðka hæglæti er langtímaverkefni þar sem lífið heldur áfram að gefa. Tökum því með okkur inn í daginn að dvelja í núvitund, að anda og njóta að draga úr neyslu og gefa sjálfum sér svigrúm til að vera og fara hægar yfir.


 
 
 

Comments


bottom of page