top of page
Search

Hæglæti og fjárhagsleg heilsa

Hæglætislíf og það að lifa hægar er að lifa meðvitað, með eigin tilgang og að stefna í átt að sjálfsþekkingu og athygli á því hvernig við veljum að lifa. Engin algild skilgreining er þó til á hæglæti. Hæglæti er einfaldlega að lifa hægar, og að taka betur eftir, sjá trén fyrir skóginum og að velja í athygli.


Fjárhagslegar ákvarðanir okkar eru oft teknar í hálfgerðu meðvitundarleysi og án ásetnings. Við kaupum hluti sem við höfum ekki þörf fyrir, við kaupum okkur utanlandsferðir þegar við verðum leið á rigningunni, við stundum skyndikaup þegar okkur leiðist, förum á netið og spreðum í föt eða dót sem okkur vantar ekki.


Að lifa fjárhagslega ómeðvitað getur skapað streitu og spennu, og að sama skapi getur streita, sérstaklega ef hún er orðin of mikil, haft neikvæð áhrif á fjárhaginn, til dæmis ef við erum of þreytt og streitt til að taka skynsamlegar ákvarðanir. Við verslum áreiðanlega oftar skyndibitamat eða veljum dýrari mat þegar við erum full af streitu og þreytu og finnum ekki tíma eða yfirvegun til að taka góðar ákvarðanir um matarinnkaup.


Það eru því nokkur tengsl á milli streitu og fjárhagslegrar heilsu – óreiða í fjármálum veldur streitu – streita getur skapað óreiðu í fjármálum.


Sjálf hef ég mikla reynslu af því hvernig neikvæð fjárhagsstaða hefur áhrif á líðan og streitustuðulinn og ég hef líka nú orðið, reynslu af því hvernig hægara líf og það að hægja á huganum, skapar rými til að taka betri fjárhagslegar ákvarðanir.


Þegar lífið er orðið of hlaðið verkefnum, við lifum of hratt, þeysumst á milli staða, fyllum verkefnalistann umfram það sem við ráðum við, býst ég við að öll eigum við erfiðara með að hafa stjórn á fjármálunum.


Hins vegar þegar við styttum verkefnalistann, veljum vandlega og forgangsröðum, getum við leyft okkur að lifa hægar, anda dýpra og meðvitaðra, taka betur eftir og velja betur hvað við gerum við peningana okkar.


Sjálf fór ég út í lífið án þess að vera sleip í fjármálalæsi. Ég kunni þó ýmislegt fyrir mér í fjármálum, hef lært á bókhald og kann á debet og kredit, en ég var þó lengi vel heldur óskynsöm í fjármálum. Við eiginmaðurinn leyfðum okkur oft að kaupa hluti eða gera eitthvað án þess að eiga fyrir þeim. Þá steyptum við okkur í skuldir, þó ekki væri kannski um háar fjárhæðir að ræða, en það safnast smám saman og hækkar ef svona mynstur fær að vera viðvarandi. Þess vegna vorum við oft með óþarfa skuldir og greiddum þess vegna mikinn pening í vexti og lánskostnað.


Í dag geri ég mitt besta að vera ekki upptekin af hugsunum eins og „bara ef ég hefði vitað betur, þá hefði ég getað safnað sjóðum og sparað“. Ég geri mitt besta í dag að sýna mér mildi og skilning fyrir það að hafa ekki kunnað betur að haga mér eftir því sem ég vissi að væri skynsamlegt. Það var bara svo oft svo skemmtilegt að eignast hluti og lifa einhvers konar skyndigleði þegar lífið gat verið þungt og fullt af kvíða og áhyggjum. En ég veit það núna að þetta var ákveðinn vítahringur. Kvíðinn var einnig til staðar því við áttum erfitt með að ná endum saman. En það er alltaf hægt að vera vitur eftir á.


Ég vil hins vegar hvetja ykkur öll til að byrja fyrr að tileinka ykkur góðar fjárhagslegar ákvarðanir og betri praktík en ég stundaði áður.


Og ég vil líka segja við ykkur, að það er betra að spara 1000 krónur en enga krónu. Það er eiginlega hægt að fullyrða að það er örugglega eitthvað hjá öllum sem má sleppa kaupum á og leggja frekar peninginn fyrir á reikningi og safna á hann vöxtum.


Einfaldasta eða aðgengilegasta reglan í fjármálum er þessi: Ekki eyða meiru en þú vinnur þér inn.


En hvernig getum við stjórnað því?


Svarið mitt er að halda heimilisbókhald og skammta ákveðinn pening fyrir hina ýmsu útgjaldaflokka. Nú til dags eru til frábær tæki, forrit og öpp, til að skrifa upp hvernig við verjum peningunum okkar og hvað við fáum inn á reikninginn okkar í hverjum mánuði. Ef við gætum þess að eyða aldrei meiru en við vinnum okkur inn, getum við alltaf lagt mismuninn inn á sparnaðarreikning og átt þá fyrir því sem okkur langar að leyfa okkur að eignast eða upplifa.


Með því að halda heimilisbókhald öðlumst við yfirsýn yfir mánaðarleg útgjöld og getum betur planað til framtíðar. Gert áætlanir um sparnað fyrir ferðalögum, stórum viðburðum eða fjárfestingum. Að setja sér ásetning um að eiga fyrir fermingarveislunni sem haldin verður á næsta ári með því að leggja inn tiltekna upphæð á mánuði inn á sérmerktan sparnaðarreikning, að leggja inn tiltekna upphæð á mánuði inn á ferðareikning fjölskyldunnar og svo framvegis. Að gera okkur grein fyrir hversu mikils við þörfnumst til að geta haldið okkur réttu megin við núllið. Taka ákvarðanir um hvað vanti og hvað sé nauðsynlegt og hverju hægt sé að sleppa.


Ég mæli með að eiga opið samtal og samstarf við fjölskyldumeðlimi um fjárhagslegar ákvarðanir. Auðvitað eru það aðallega pör og foreldrar sem þurfa að eiga samstarf um fjárhag heimilisins og um áætlanir um útgjöld og fjárfestingar en það er gott að bjóða börnum til þátttöku í afmörkuðum samtölum um hvað fjölskylduna langi til að gera saman og hvernig eigi að safna peningum fyrir því.


Það er líka gott að gæta þess að eiga reglulega samtal um stöðuna á reikningunum við maka og um það hvað er í pípunum, hvaða útgjöldum má búast við á næstunni, svo ekki þurfi að skapast spenna og streita um óvænt útgjöld. Það er yfirleitt hægt að koma í veg fyrir streitu vegna fjármála með því að eiga opinská samtöl og heiðarleg, um fjárhagsstöðuna. Eins er svo gaman þegar markmiðin nást og fjölskyldan nær að fara saman í ferðalag eftir að hafa sparað fyrir því í sameiningu. Stundum þurfa allir fjölskyldumeðlimir að leggja nokkuð á sig til að sleppa því að kaupa hluti sem þau annars hefðu viljað kaupa, og þá á ég við þegar hlutirnir eru í raun óþarfir.


Þannig er gott að spyrja sig heiðarlega, hvers þarfnast ég í raun?


Hvað vantar og hvað er ekki nauðsynlegt?


Hverju getum við sleppt?


Svo er ótalmargt sem hægt er að gera, skapa góðar og skemmtilegar samverustundir, sem kosta ekki krónu. Til eru fjölmargar síður á netinu sem gefa hugmyndir að ódýrum eða ókeypis afþreyingu. Ganga eða hvers kyns útivera í náttúrunni er það besta sem ég get hugsað mér og nefni því það sem frábæra leið fyrir öll sem vilja hafa gaman og spara pening í leiðinni.


Skoðið steina, faðmið tré, týnið lauf og köngla til að búa til fallegar skreytingar úr, dýfið tánum í sjóinn, vatn eða á, labbið berfætt, leggist í grasið og horfið á skýin, farið í höfrungahlaup með börnunum eða vinunum, hlustið á þrestina og rjúpurnar, fylgist með oddaflugi gæsanna sem eru um það bil að fljúga suður á bóginn, knúsist ef þið viljið, farið í feluleik eða spilið á spil.


Ef okkur tekst að hægja á er auðveldara að taka betri ákvarðanir. Að yfirvega og meta þörf á útgjöldum.


Það er einfaldlega auðveldara að setja sér nýjar venjur í hægara tempói, svo sem að hefja sparnað, greiða inn á lán og greiða niður skuldir.


Svo að endingu er gott að iðka þakklæti fyrir það sem við höfum nú þegar með okkur í lífinu og fyrir allt sem við höfum aðgang að og njótum. Að hafa þakklætisfókus í stað skortshugsunar býr til líðan sem er grundvöllur að vexti og gróskuhugsun.


Mæli hjartanlega með.


97 views0 comments

Recent Posts

See All

コメント


bottom of page