top of page
Search

Hæglæti og hlustun skapa tengsl

Nútíma menning hefur þróast í seinni tíð í þá átt að hún ýtir undir aðgreiningu í stað tengingar og samstillingar. Við erum í kapphlaupi við tímann og jafnvel við okkur sjálf. Ung börn byrja gjarnan snemma að heyra setningar í ætt við „drífðu þig“ eða „við erum að verða of sein“. Við hin fullorðnu lítum á klukkuna því við megum ekki verða of sein í næsta augnablik.


Við missum svo mörg tækifæri til vellíðunar í hraðanum því við yfirgefum augnablikið og hendumst í það næsta. Dr. Elissa Epel og fleiri hafa rannsakað hvernig hamingjustig eykst við það eitt að vera til staðar í augnablikinu með opinn huga - án dóma. Það kallar á að við leyfum öðrum að skapa augnablikið með okkur og með því getur orðið falleg tenging og samstilling á milli einstaklinga.


Eitt af því sem gerist gjarnan í kapphlaupinu við tímann er að við verðum sjálfhverf. Hugurinn skreppur saman og nálgast það sem hann skynjar út frá því sem hann veit og þekkir þá þegar. Við heyrum það sem aðrir segja, en hlustum mögulega ekki til fullnustu. Hugurinn er tilbúinn að koma því sem hann veit á framfæri og þar af leiðandi á sér ekki stað sú samsköpun og tenging sem getur orðið þegar fleiri en einn einstaklingur eru saman.


Það getur verið góð æfing að taka stundir þar sem við hlustum og erum forvitin, hlustum og leyfum öðrum að hafa áhrif á okkur, hlustum og leyfum okkar eigin huga með allt það sem hann veit, að vera forvitinn um það sem á sér stað og án þess að bregðast við.

108 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page