„Heyrðu hún er bara hætt í háskólanum“, segir ein frú við aðra frú í hneykslan, þar sem þær keppast við að taka smók af sígarettunum og taka kaffisopa úr röndóttu Ikea bollunum. „Hvað segirðu? Gafst hún bara upp?“, spyr hin. „Já hún hefur bara ekki ráðið við þetta, enda er hún bara ekki með fókusinn og úthaldið sem þarf í þetta. Það eru margir sem að vinna fulla vinnu og eru í háskólanum svona meðfram bara. Og að reka fjölskyldu, hva! hún er nú ekki sú eina með slík verkefni. Óttaleg sóun að hætta á miðri leið.“
Þessar frúr (frýr eins og ég kalla þær líka) eru vinkonur mínar og íbúar í mínum fagra haus. Þær eru ekki til annars staðar, bara í mínum haus. Alla vega þessar frýr. Ég á þær. Mögulega eiga aðrir sínar frýr.
Það gerðist sem sé í síðustu viku að ég hætti í háskólanum. Já og það var yndisleg og auðveld ákvörðun. Þetta samtal sem ég rakti hér að ofan varði einungis í um það bil þrjár sekúndur og svo slökkti ég á þessari rás og yfir á aðra.
Ég skráði mig til náms í háskólanum í byrjun sumars til að bæta við mig diploma gráðu í fagi sem ég taldi mig þurfa að hafa til að geta framkvæmt nokkuð sem mig langar að gera. Ég er sem sé fyrir með annað háskólanám sem almennt þykir bara þó nokkuð og alveg nóg. En ég fékk það sem sagt á tilfinninguna að til þess að mega framkvæma það sem mig langar að framkvæma og skapa það sem mig langar að skapa, að þá yrði ég að hafa prófgráðu til að hafa leyfi til þess. Nú skilst mér að þetta sé algengur misskilningur, sérstaklega hjá konum; þær þurfi alltaf að hafa háskólapróf til að mega tjá sig eða hvað þá fræða aðra um tiltekin málefni eða aðferðir. Þær fái annars ekki leyfi eða verða fyrir gagnrýni fyrir að blaðra um eitthvað sem þær hafi ekki hundsvit á. Svo ég skráði mig til náms og sat við nám í mánuð.
Eftir mánuð rann upp fyrir mér ljós. Staðan var einhvern veginn á þessa leið: Ég var komin út í miðja hyldjúpa, straumharða á og var um það bil að missa fótanna og alla stjórn. Það hlóðust upp verkefni og ég kepptist við. Ég kepptist við að vera í núinu. Gera bara eitt í einu. Gætti þess að skrifa öll verkefnin í dagatalið svo ekkert myndi gleymast. Líka verkefnin á heimilinu, í vinnunni og líka í aukaverkefnunum mínum, sem ég elska að sinna og geri með gleði. Ég tróð marvaðann. Ég gætti þess að hætta þegar ég var orðin þreytt og var skynsöm og fór að sofa á skikkanlegum tíma. Ég gætti þess að stilla mig í meðvitund og viðveru þegar dóttir mín kallaði á athygli eða aðstoð. Ég skrifaði á innkaupalistann ef vantaði smjör og brauð. Ég setti í þvottavél og tók úr henni á milli verkefna. Bara svona í hæglæti. Ég skipulagði vinnufundi, ég tók að mér fleiri verkefni og ég gætti þess að anda ofan í maga. Og svo byrjaði ég að lesa. Tókst að lesa þrjár og hálfa blaðsíðu af hundrað þar til ég gat ekki meira. Hugsaði með mér, ég gæti auðvitað aldrei komist yfir að lesa allt efnið, þannig var það ekki heldur í lögfræðinni (þegar ég var ekki með neitt nema fjölskyldu og sjálfa mig og námið að hugsa um, og reyndar veika mömmu og fjármálahrun og eitt og annað). Svo ég taldi mér trú um það í nokkrar vikur að þetta yrði bara skemmtilegt og spennandi. Ég mætti ekki gera of miklar kröfur til mín. Þetta myndi reddast.
Svo hugsaði ég einn daginn: Til hvers er ég að þessu? Hvað í ósköpunum er ég búin að koma mér í? Þetta er algjört RUGL!
Svo ég sagði mig úr háskólanum. Eins einfalt og það hljómar. Ef mig vantar þessa þekkingu þá hringi ég í einhvern sem er með hana og fæ til að vinna með mér.
Það má hætta við á miðri leið og því ræður enginn nema þú sjálfur. Ekki frýrnar í hausnum. Bara þú.
Hæglæti er að átta sig á því.
Comments