Við tökum ekki eftir neinu ef við erum alltaf á hreyfingu. Við missum af svo miklu ef við getum ekki setið kyrr með því sem er.
Núvitund er að sjálfsögðu engin allsherjarlausn á öllum vandamálum heimsins en…
…ef við viljum draga úr hraða í lífi okkar?
…ef við viljum geta svarað meðvitað í stað þess að bregðast við á sjálfstýringunni?
…ef við viljum geta dregið úr streitu, bætt eigin lífsgæði, bætt minni og athygli, bætt samskipti við okkur sjálf og aðra.
..ef við viljum geta bætt tengsl við eigin líkama og eigið innsæi…
já þá er núvitundarþjálfun gagnleg fyrir okkur flest.
Núvitund hefur verið mikið rannsökuð síðustu 30 árin að minnsta kosti og þær rannsóknir hafa sýnt að núvitund getur hjálpað til við að takast á við langvinna verki aukið samkennd, dregið úr reiði, dregið úr streitu, kvíða og þunglyndi, aukið jákvæðni og lífsgleði og hún hefur bein áhrif á virkni heilans.
Og það er til mikill fróðleikur, stuðningsefni og æfingar á hinum ýmsu forritum, vefsíðum, bókum og námskeiðum hjá fagfólki. Við hjá Hæglætishreyfingunni bendum einnig á 17. þátt Hæglætishlaðvarps okkar þar sem kafað er í núvitund.
Gott og vel, þetta hljómar allt vel. En hvernig?
Hvað getum við gert til að vera meira í núinu?
Núvitund er hægt að iðka hvar sem er, með því að veita því athygli sem er að gerast hér og nú.
Það eru til ýmsar leiddar æfingar og hugleiðslur, en við getum líka bara staldrað við oft og reglulega og tekið eftir augnablikinu.
Hvað sérðu? Hvað heyrirðu? Hvaða lykt finnur þú? Hvaða hugsanir eru í höfðinu? Hvernig líður þér í líkamanum?
Það skiptir ekki máli hvort það sem þú skoðar er þægilegt eða óþægilegt, slæmt eða gott. Þú skoðar það bara.
Ef hugurinn fer eitthvert annað, sem hann mun gera, þá tekur þú eftir því og tekur hann til baka til augnabliksins hér og nú.
Og þannig styrkist smátt og smátt geta okkar til að geta verið nærverandi, hér og nú, í stað þess að vera á sjálfstýringunni, ómeðvituð og rofin, föst í fortíð eða framtíð. Um það snýst núvitund.
Verum forvitin. Við höfum engu að tapa og það er aldrei of seint að byrja. Og munum að í þessari þjálfun, sem og í lífinu sjálfu, að sýna okkur góðmennsku í eigin garð, hlýju og þolinmæði.
Gangi okkur vel!
Ingibjörg Ólafsdóttir
mynd eftir Shantanu Kulkarni á Unsplash
Comments