top of page
Search

Ofurmamma á yfirsnúningi

Kröfurnar og fullkomnunaráráttan

Ég er kona sem keyrði af miklum krafti á vegg. Þurfti að læra á stjórnkerfi mitt á erfiðan hátt. Þegar ég segi stjórnkerfi á ég við líkama minn og sál.

Frá því ég var lítil hef ég átt mér tvo fylginauta, kvíða og fullkomnunaráráttu. Einhvern tímann fór ég að telja mér trú um að ég, eins og ég var, væri ekki nóg. Eitthvað sagði mér að ég þyrfti að gera meira, betur og hlaupa hraðar og hraðar. Ég setti markið hátt. Ég vildi vera best, hæst og fyrst í sem flestu. Sjálfsmynd mín var að miklu leyti byggð á árangri og utanaðkomandi hrósi. Ef ég stóðst ekki þessar kröfur sem ég setti á sjálfa mig gat fallið verið ansi hátt. Mér fannst ég stundum gjörsamlega ómöguleg!

Mögulega tengja einhverjir við þessa líðan og þekkja þessa tvo félaga, fullkomnunaráráttuna og kvíðann. Þessir félagar hafa fylgt mér áfram. Ég á það til enn í dag að setja markið of hátt. Setja óraunhæfar kröfur á sjálfa mig og umhverfi mitt en ég er alltaf að læra.


Ofurkonan og ofurmamman

Þessi innri vandi og almenn viðkvæmni mín fyrir stressi og álagi á sannarlega sinn þátt í því að ég keyrði á vegginn. Fór í kulnun, örmögnun, burnout eða hvað við kjósum að kalla það. Þessi vandi kom samt ekki eingöngu frá mér hann kom líka utanfrá. Frá þessu samfélagi sem ég vil meina að glími jafnframt við sína púka. Samfélag sem krefst oft gríðarlega mikils af okkur. Mörg okkar kannast við að þurfa að hlaupa hratt og halda mörgum boltum á lofti.

Daglegt líf og allt sem því fylgir getur verið krefjandi. Langir vinnudagar og fjölskyldulíf ásamt öllu hinu sem bætist svo við. Mörg okkar eiga lítinn tíma til að hugsa um sig og við erum að auki þjökuð af samviskubiti. En umfram allt verðum við að vera dugleg! Ekki er það verra ef við erum ofur-dugleg, ofur-foreldrar, ofur-konur eða eitthvað annað ofur!

Á Íslandi er dugnaður dyggð og það er í raun hálfgert norm að hafa mikið að gera. Ég hef verið kölluð ofurmamma og ofurkona og tók því sem hrósi en í dag er ég ekkert sérstaklega hrifin af þessum orðum. Mér finnst hugtakið “ofur” náskylt fullkomnun og bæði hugtökin krefjast ansi mikils af okkur. Ef ég vil vera “fullkomin ofurmamma” er ég sennilega að setja markið ansi hátt og hvað gerist þá?

Við þurfum að minna hvort annað á þetta mannlega í eðli okkar. Fagna ófullkomleikanum og brjóta upp glansmyndir. Þreytt mamma sem segir hlutina eins og þeir eru er að mínu mati mun betri fyrirmynd en sú sem sýnir glimmeraða glansmynd!Kulnunin

Mín kulnun átti sér stað þegar eftir að ég eignaðist mitt fjórða barn. Hún átti sér ekki stað í starfi, heldur heimavið. Ég átti tvö síðustu börnin með stuttu millibili og maðurinn minn vinnur að heiman. Auðvitað gat ég þetta – lítið mál að vera með fjögur börn og sjá um allt ein inn á milli. Duglegar ofurmömmur þurfa ekki hjálp!

Þessari “ofurmömmu” leið samt ekki vel. Ég átti erfiða fjórðu meðgöngu, var með stoðkerfisvanda og álagið var mikið. Svefnvandi og síþreyta var ekkert til að tala um. Ég hlustaði ekki á líkamann sem var að segja stopp. Ég harkaði af mér og tók verkjalyf og drakk meira koffín. Það að vera oft tæp í skapi og líða illa andlega var ekkert til að tala um. Ég hélt bara áfram og gerði allt sem ég var vön að gera. Það var algjörlega óþarfi að slá af kröfunum! Það að vera í miklu streituástandi, með hjartsláttartruflanir og of háan púls var orðið eðlilegt ástand. Ég hætti að taka eftir merkjunum og hélt áfram á hnefanum.

Svona leið mér í tvö ár. Þangað til líkami og sál gátu ekki meira. Einn daginn var ég svo örþreytt að ég komst ekki fram úr rúminu. Ég gat ekki tæklað daginn. Ég gat ekki hugsað um börnin mín eða heimilið. Ég grét við minnsta tilefni og allt var svo gríðarlega yfirþyrmandi! Ég leitaði til sálfræðings míns eftir langt hlé. Hann sagði mér að ég væri í miklu örmögnunarástandi og þetta ástand mitt væri mjög langt frá því að vera eðlilegt.


Batinn og lærdómurinn

Við tók langt og strangt bataferli sem ég er ennþá í í dag. Ég hugsa ég verði aldrei söm – sem er í góðu lagi, ég hef lært svo margt! Ég vona sannarlega að fæstir fari eins langt og ég. Í meira en ár átti ég erfitt með að fara fram úr rúminu og gera verk sem við teljum flest einföld og auðveld. Fyrstu mánuðina voru 10 mínútna göngur í nágrenninu mikið meira en nóg. Ég var lengi skugginn af sjálfri mér.

Hvers vegna opna ég mig og segi mína sögu? Það er til þess að aðrir geti lært af henni og hún mögulega hjálpi einhverjum. Ég vil brjóta upp hugtök eins og “fullkomnun” og “ofur” og það skiptir gríðarlega miklu máli að setja raunhæfar kröfur á okkur sjálf. Við erum ekki vélar sem ganga endalaust áfram. Líkaminn virkar ekki þannig og það þarf að vera jafnvægi milli áreynslu og hvíldar. Allt þarf að vera í jafnvægi rétt eins og í náttúrunni. Hlaða þarf sjálfan sig rétt eins og símann.

Ég hef lært margt af þessari reynslu. Ég hef breytt um takt. Ég er markvisst að brjóta af mér brynju fullkomnunaráráttunnar. Ég þarf ekki lengur þessa utanaðkomandi styrkingu sem ég þurfti áður. Mér finnst ég oftast ágæt eins og ég er. Keppnisskapið hefur dalað og ég leyfi mér að vera allskonar. Streitukerfið mitt er ennþá viðkvæmt og ég þarf að passa mig og læra af reynslunni því mig langar alls ekki að keyra á þennan vegg aftur.


Mannlegar kröfur

Við þurfum að passa þær kröfur sem við setjum á okkur sjálf. Ef þú ert fastur/föst/fast í miklu streituástandi þarftu að staldra við og leita þér hjálpar ef þess er þörf. Sjúkleg streita með öllum sínum fylgikvillum er ekki eðlilegt ástand. Það að vera alltaf þreyttur er ekki eðlilegt ástand. Hraði er eitthvað sem við eigum að stjórna sjálf í lífi okkar frekar en að hraðinn stjórni okkur. Eins má velta fyrir sér mörgum spurningum eins og að mögulega sé þetta samfélag okkar ekkert það heilnæmt þegar kemur að streitu? Kannski þurfum við að fara að snúa á þessa púka samfélagsins? Getur verið að normið sé ekkert norm?

Það er mikilvægt að þekkja sitt eigið stjórnkerfi og átta sig á því hvenær nóg er nóg. Hlusta á líkama og sál. Bensínlaus bíll getur ekki haldið áfram og það sama á við um okkur! Lækkum standarda og verum raunsæ. Gagnrýnum samfélagið ef við teljum þess þörf. Skiptum um gír ef þess þarf. Síðast en ekki síst megum við aldrei gleyma því að við þurfum ekki að vera fullkomin eða ofur - við erum öll einstök og dásamlega mannleg!


Sólveig María Svavarsdóttir

varaformaður Hæglætishreyfingarinnar á Íslandi


Meira um Sólveigu Maríu hér:


Og Sólveig María er með samfélagsmiðlana:861 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page