top of page
Search
Hæglætishreyfingin á Íslandi

Opnaðu á möguleikana og leyfðu þér að taka pláss

Updated: Oct 30

Hæglætishugleiðingar eftir Þóru Jónsdóttur formann Hæglætishreyfingarinnar á Íslandi.

Hve nærandi er gleðin að vita þig anda
Hve nærandi er gleðin að vera þér hjá
Hve gott er að skynja mýkt þinna handa
Hve gott er að skynja og sál þína sjá

Svona eru fyrstu línur lags sem kom út í desember 2017. Textinn er eftir mig.

Já, ykkur kann mörgum að þykja óþarfi að hefja þessa fyrstu bloggfærslu á vef Hæglætishreyfingarinnar á einhvers konar sjálfumglöðu monti. Og það er allt í lagi. Ykkur er frjálst að hafa þá skoðun.

Eftirfarandi skrif skýra vonandi þessa framhleypni mína og kannski fáið þið þá aðra og nýja sýn en þá fyrstu.

Árið 2017 var mikið umbreytingaár í mínu lífi og okkar fjölskyldunnar. Á því ári fluttum við úr borginni í sveit. Í faðm fjallanna. Í víðáttu og frelsi. Frelsi frá spennu og streitu borgarlífsins. Í annars konar samfélag þar sem nágrannar eiga samskipti og sjá og heyra hverja aðra. Allt er opnara og meira í hjartanu hér í sveitinni okkar, það er mín upplifun í það minnsta. Kannski er það líka vegna þess að mér reynist nú orðið auðveldara að vera það sjálf.

Með því að flytja úr borginni í sveitina gerðist það óhjákvæmilega að það hægði á lífinu.

Og þegar hægir á lífinu, gerist margt fleira. Í mínu tilfelli varð mikið umrót í tilfinningalífi mínu. Við það að hægja á umhverfinu kom í ljós að ég sjálf var ennþá andlega innstillt inn á gamla hraðann. Ég var andlega enn stödd í samanburðarforritinu, stjórnunarforritinu og fullkomnunarforritinu. Þögnin og hæglætið í sveitinni varpaði ljósi á spennuna sem hugur minn og andi voru enn að ástunda. Ég uppgötvaði að þrátt fyrir að ég væri flutt á draumastaðinn í draumaumhverfið, væri ég enn ekki sátt. Ég var ófullnægð og mig vantaði eitthvað meira. Ég upplifði að mér hefði mistekist og að ég hefði ekki náð að áorka því sem mig langaði mest af öllu. Mig langaði að hafa áhrif. Mig langaði að hafa jákvæð áhrif út í samfélagið. Ég upplifði miklar áhyggjur af ástandi heimsins og pressu um að finna lausn á vandanum. Mér fannst ég persónulega ábyrg fyrir að græja loftslagsvandann, bjarga öllum börnum heimsins frá ofbeldi og jafna stöðu kynjanna. Og ég vildi koma í veg fyrir allan sársauka og áföll barna minna og maka og stórfjölskyldu. Ég ætlaði að tryggja að allir hefðu það rosa gott og að allt myndi bjargast. Ég.

Finnst ykkur þetta ekki krúttlegt mikilmennskubrjálæði? Mér finnst það núna. Nú þykir mér mjög vænt um þennan eldhuga sem ætlaði að vera lausnin í einu og öllu. Hinir voru bara ekki alveg að sjá þetta sama og ég. Svo gaman að skoða þetta núna.

Smám saman lærði ég að sleppa tökunum inn í hæglætið. Ég tók heiminn af herðunum. Ég gaf stjórnina eftir. Ég lærði að leika mér aftur. Ég bjó til nýtt rými. Í þessu nýja rými fann ég frelsið. Í frelsinu fann ég flæðið. Flæði til að skapa. Flæði til að flippa út og hlæja. Flæði til að sjá aðra í þessu sama flæði. Í þessu rými varð til nýr lærdómur. Ég lærði að ég og þú erum jöfn. Við erum jafnmikilvæg og jafn burðug að breyta og skapa. Og saman erum við svo miklu magnaðri en hver og einn einstaklingur.

Ég lærði að hlusta, hlusta raunverulega. Heyra betur og sjá fólk. Sjá hversu fær við erum öll til að finna svörin okkar. Ég lærði að treysta. Og með því varð til mikill léttir. Og hvað það er miklu, miklu skemmtilegra að upplifa trúna á að við séum í raun öll fær um að finna lausnirnar og að það sé engin ástæða til að eyða tíma í ágreining. Við þurfum ekki að sanna neitt fyrir neinum og við þurfum ekki að hafa rétt fyrir okkur. Við höfum öll smá rétt fyrir okkur. Eða kannski bara alveg. Sannleikur okkar getur verið ólíkur sannleika einhvers annars. Og það er allt í lagi.

Þetta er ekki keppni. Þú mátt eiga þinn sannleika og ég minn. Og svo er hann kannski ekki svo ólíkur eftir allt, þegar við leggjum frá okkur vopnin og keppnishaminn.

Ég, ásamt mörgum, mörgum öðrum, er að uppgötva og læra inn á hæglæti. Ég lærði fyrst um hæglæti þegar ég las bók Carls Honoré, Lifum lífinu hægar (e. In praise of slowness) fyrir um 15 árum. Hugmyndafræðin heillaði mig og ég tengdi við margt sem hún bauð mér upp á. Það sem ég man eftir að hafa tengt mest við þá var léttirinn sem mér fannst hún færa mér því ég mætti láta af þátttöku minni í lífsgæðakapphlaupinu. Mér fannst ég læra það af lestri bókarinnar að ég gæti byrjað að breyta huga mínum í þá átt að finnast ég ekki stöðugt skorta eitthvað. Að ég þyrfti alltaf að öðlast meira og fá meiri viðurkenningu fyrir hvað ég væri búin að áorka miklu. Bókin opnaði mér nýjar hugmyndir sem hafa leitt mig inn í frelsi og léttleika. Ég mæli með lestri hennar fyrir alla.

Í þátíðinni upplifði ég höfnun ef fólki líkaði ekki það sem ég gerði. Og ég leyfði mér þá að túlka þögn og áhugaleysi sem merki um að fólki líkaði ekki það sem ég gerði. Já ég veit, annað krúttlegt merki. Ég lifði í ótta, skorti og skuld. Mér fannst ég aldrei vera eða gera nóg.
Nú bý ég svo vel að hafa skilið og lært að ég þarf enga viðurkenningu fyrir það sem ég skapa eða ákveð að framkvæma. Ég þarf bara sjálf að vita hvað ég vil og hvernig ég vil túlka það eða lifa það. Ég hef tilgang og hann er skýr í mínum huga. Mér hefur nú lærst að það hjálpar mikið að skapa, skilja og þekkja tilganginn sinn. Ég fann út fyrir mig hver minn tilgangur er. Og ég má það því ég hef gefið mér leyfi til þess. Ég þarf ekki leyfi annarra. Og það er ekkert merkilegt. Það er bara til að einfalda mér lífið og veitir mér tækifæri til að lifa lífinu virk í sátt og gleði.

Allt það sem hér hefur verið skrifað er til að skýra hvers vegna Hæglætishreyfingin er að verða til á Íslandi með þeim hætti sem á þessari síðu birtist. Fyrir meira en ári síðan ákvað ég að opna hóp á Facebook sem fékk nafnið Hæglætishreyfingin. Með smá ónotatilfinningu fyrir því að ég væri að taka mér pláss sem ég ætti ekkert í. Ég leyfði mér þó að trúa og treysta þeim lærdómi mínum að ég mætti og þyrfti að taka pláss og fylla upp í ónotað pláss. Ég vildi bara taka af skarið og vonaðist svo eftir að fleiri kveiktu á hugmyndinni. Ég hef nefnilega þá trú að hæglæti sé svar fyrir fleiri en mig. Og það er aldeilis að koma í ljós að ég er ekki ein um að hafa þessa þörf. Við erum mjög mörg sem höfum uppgötvað hæglætishugmyndafræðina og raunar hafa auðvitað alla tíð verið margir sem ástunda hæglæti án þess að hafa hátt um það.

Það kom á daginn að margir heilluðust af hæglætinu og eftir nokkra mánuði, bar vinkona mín og samstarfskona, Guðrún Helga Jóhannsdóttir, upp þessa dásamlegu hugmynd um hvort við ættum ekki að gera eitthvað saman með hæglætið. Takk fyrir að tengja kæra Guðrún og að sýna hugrekkið að bjóða upp í dans. Það var skemmtileg stund að tengjast þessum sameiginlegu böndum í gegnum hæglætið. Nú fóru hjól hæglætisins að snúast. Fleiri voru þá kallaðar saman (já aðeins konur í upphafi) sem sameinuðust um að stofna Hæglætishreyfinguna á Íslandi.

Nú er hún orðin til. Og þið eruð öll velkomin að vera með.

Stofnendur hreyfingarinnar eru þessar:

Sólveig María Svavarsdóttir, Ingibjörg Ólafsdóttir, Ágústa Margrét Arnardóttir, Guðrún Helga Jóhannsdóttir, Þóra Jónsdóttir, Sabína Steinunn Halldórsdóttir, Guðný Valborg Guðmundsdóttir, Nína Jónsdóttir, Ragnheiður Gröndal og Pálína Ósk Hraundal.

Það má lesa um okkur allar hér á síðunni. Saman munum við standa að bloggskrifum, hvatningu inni á samfélagsmiðlum okkar og að Hæglætishlaðvarpinu.

Það sem tengdi okkur saman var að við höldum allar úti Instagram reikningum sem hafa hæglæti að umfjöllunarefni í einni eða annarri mynd. Við fundum samhljóm og ákváðum að tengjast. Og þannig gerðist það að Hæglætishreyfingin varð til. Takk stelpur allar, fyrir að kveikja á hugmyndinni og fyrir að vinna þétt saman að því að búa þennan veruleika til.

Sérstakar þakkir til Ágústu Margrétar fyrir að hanna og skapa útlit hreyfingarinnar og fyrir að setja heimasíðuna upp.

Hæglætishlaðvarpið hefur verið búið til og fyrsti þáttur gefinn út. Það er hægt að finna hér á síðunni, á Spreaker.com og á Spotify. Við stefnum að því að gefa út einn þátt á mánuði, í hæglæti og njóta þess.

Hæglætishugsunin er sannarlega ekki mín uppgötvun eða okkar. Hæglætishreyfingin hefur verið að berast út um heiminn á undanförnum áratugum og í upphafi með tilurð Slow-food hreyfingarinnar. Þannig er það ekki tilgangur stofnunar hreyfingarinnar að eigna okkur hugmyndafræðina eða stæra okkur af því að hafa „fundið eitthvað upp“, heldur er tilgangurinn sá að gera aðgengi að samtali um hæglæti og hugmyndafræðina betra og að auðvelda fleirum að nálgast hana og tileinka sér ef þörf og áhugi er fyrir hendi.

Þó mörgum þyki nóg um hve mikið ég hef talað um sjálfa mig í þessum pistli, mér sjálfri þar með talið, vil ég samt enda hann á að segja að ef maður sjálfur tekur ekki af skarið, þá gæti það gerst að það geri það enginn. Ef þú hefur trú á að eitthvað geti hjálpað samfélaginu í átt að svörum við verkefnum samtímans, ekki liggja á því eins og ormur á gulli. Opnaðu á möguleikana og leyfðu þér að taka pláss.

Ljóðið við lagið sem ég birti hér í upphafi, er ástaróður til mannsins míns og núvitundarupplifun. Það er eitt það fyrsta sem varð til, þegar ég hafði ákveðið og gefið mér leyfi til að taka mér pláss og leyfa því að koma sem til mín kemur. Ég ætla héðan í frá ekki að standa í vegi fyrir því, að það berist út í heiminn og fái vængi.

Þóra Jónsdóttir
formaður Hæglætishreyfingarinnar á Íslandi

Meira um Þóru hér:

Þóra er á samfélagsmiðlunum:
og Slow living Iceland á instagram



255 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page