top of page
Search

Streita, kulnun og konur sem klessa á vegg

“Ég byrja á því að senda þig í veikindaleyfi í tvo mánuði” sagði læknirinn. Vegna streitu, örmögnunar, kulnunar eða hvað við viljum kalla það.


“Tvo mánuði” æpti ég nánast. “Það gengur ekki. Ég get ekki tekið mér tvo mánuði frá vinnu. Hvað á ég að gera? Hvað á ég að segja? Ég get ekki horft framan í fólk. Ég hef ekki tíma fyrir þetta. Það er allt á hvolfi í vinnunni. Ég get ekki skilið vinnufélagana eftir í þessu. Ég er ómissandi. Ég þarf bara tvær vikur, tvær vikur af time-out til að sofa aðeins, ná niður þessum verkjum, hugsa skýrt og fá upp orkuna og einbeitinguna og minnið og hvíla mig aðeins. Tvær vikur. Ég þarf ekki meira” sagði ég, algjörlega óvitandi um þetta langa ferðalag framundan.


“Jæja þá, en hvað ætlarðu að fara að gera í vinnunni?” sagði læknirinn. “Þú sefur ekki, þú ert með stanslausan höfuðverk, þú grætur mikið, þú gerir mistök og ert með vandamál með minni, einbeitingu og orku. Þú gerir ekkert eftir vinnu nema liggja í sófanum. Hvað ætlarðu að fara að gera? Hvað er svona ómissandi þar að þú getir ekki sett sjálfa þig og heilsuna í forgang? Sérðu ekki að þú ert að svíkja sjálfa þig með að halda áfram svona?”


Grmpff, óþolandi en auðvitað hafði hún rétt fyrir sér. Ég var orðin ein af “þeim.” Ein af þeim “lötu, veikgeðja, ýktu, yfirdrifnu og ímyndunarveiku” sem leituðu leiða til að þurfa ekki að vinna” sem höfðu gengið í vegginn, lent í kulnun, brennt sig út. Hinn “íslenski víkingur” var víst ekkert betri, sterkari eða gerður úr einhverju öðru efni en Svíar og bara fólk almennt. Ég þurfti að éta óþægilega mikið ofan í mig og það var súr biti að kyngja fyrir íslensku sjálfsmyndina.


Hugtökin eru á reiki á íslensku er farið að kalla þetta sjúklega streitu, (exhaustion disorder) þó í daglegu tali sé fjallað um kulnun. Utmattningssyndrom heitir það hér í Svíþjóð þar sem ég bý. Einkenni þess eru meðal annars: verkir, kvíði, depurð, svefntruflanir, svimi, minnistruflanir og skortur á einbeitingu. Oft getur þetta þróast yfir í síþreytu og batinn er oft hægur og fer mikið eftir því hversu lengi ástandið hefur þróast.


Þessar tvær vikur gerðu ekki mikið. Tveir mánuðir urðu að tveim árum. Og ég beit í það súra og neyddist til að fara í þetta ferðalag. Og reyndi að fræðast eins mikið og ég gat um þetta fyrirbæri sem sjúkleg streita, kulnun og örmögnun er því það var erfitt að þurfa að éta ofan í sig alla sína fordóma og plammeringar um þetta fyrirbæri og fólk sem lenti þarna.


Eftir því sem ég fór að fjalla meira um þetta ástand, bæði hjá mér mér persónulega, og almennt, lærði ég að svo ótrúlegur fjöldi fólks er að glíma við sjúklega streitu í sínu lífi. Feluleikurinn er hins vegar óbærilegur og fólk upplifir mikla skömm og skilningsleysi.


Ég lærði að við kulnun, eða sjúklega streitu, er líkaminn búinn að brenna út sínu innra streitukerfi. Þessu flókna kerfi hormóna, heila og taugakerfis sem við öll búum yfir, og sem tilgangur er að vernda okkur gegn hættu. Þetta kerfi er búið að vera í gangi of mikið, of lengi, og búið að valda skaða m.a. á framheila okkar þar sem við vinnum úr áreiti og upplýsingum. Þar sem við höldum í skefjum starfsemi tilfinningaheila, eða frumstæða hluta heila okkar. Það er búið að gera nýrnahettur okkar örmagna, sem fara frá því að hafa framleitt of mikið af kortísóli, stresshormóni okkar, og fer að framleiða of lítið af því sem veldur einnig ýmsum vandamálum. Taugakerfi okkar er komið úr jafnvægi og við erum búin að vera of lengi og of mikið í virknikerfi sjálfvirka taugakerfisins (sympatíska) og of lítið og of sjaldan í sefkerfi taugakerfis okkar (parasympatíska).


Ég lærði að örmögnun vegna sjúklegrar streitu er ekki vegna þess að við erum löt, léleg og ómöguleg í alla staði. Við örmögnumst vegna þess að við erum búin að bera of þungar byrðar, of lengi, án þess að hvíla okkur og endurheimta okkur nóg vel inn á milli. Hvernig sem sú hvíld og endurheimting lítur út fyrir hvern og einn.


Samkvæmt skýrslu Forsäkringskassan (Tryggingastofnunar sænsku) eru streitutengdir sjúkdómar sífellt algengari voru ástæða um 41% langvinnrar veikindafjarveru á fyrsta fjórðungi ársins 2020. Konur eru stærri hópur og þetta er algengara þegar fólk er með börn á aldrinum þriggja til átta ára, ef viðkomandi tekur mikla ábyrgð á vinnu og fjölskyldulífi og samspil heimilis og vinnu er í ójafnvægi. Eitthvað sem hefur áhrif á fleiri konur en karla, segir sérfræðingurinn í tryggingalækningum Ulrik Lidwall í þessari skýrslu.


Rétt upp hönd þið sem eruð með óheilbrigt jafnvægi milli vinnu og fjölskyldulífs á Íslandi! Af hverju ætti þetta að vera öðruvísi á Íslandi en í Svíþjóð þar sem barnafjöldi er meiri, fæðingarorlof styttra og vinnutími mikill? Ég bara spyr.


Þess vegna er mikilvægt að læra að hægja á okkur inná milli, bæði andlega og líkamlega. Minnka kröfurnar, minnka áreitið og álagið eins og við mögulega getum.


Auka hvíldina, draga úr líkamlegum áhrifum álagsins ef við getum ekki tekið út álagsvaldinn.


Því svarið, lækningin og forvörnin gegn sjúklegri streitu og kulnun er EKKI að gefa meira í, að “vera bara duglegri”, að auka andlegt eða líkamlegt álag heldur þvert á móti að draga úr hraðanum og álaginu. Finna einhvern sjálfbærari takt í tilverunni þar sem við höfum svigrúm og andrými.


Ingibjörg Ólafsdóttir

Ritari hæglætishreyfingarinnar á Íslandi


Meira um Ingibjörgu hér:

https://www.haeglaeti.is/copy-of-%C3%BE%C3%B3ra-j%C3%B3nsd%C3%B3ttir-2


Og hér finnið þið Ingibjörgu á samfélagsmiðlum:

https://www.facebook.com/search/top?q=Streita-kulnun-hv%C3%ADld

https://www.instagram.com/streita-kulnun-hvild


2,324 views1 comment

Recent Posts

See All
bottom of page