top of page
Search

Um núvitund, aha-stundir og streitustjórnun,,Það er HVERNIG þú gerir hlutina, sem skiptir mál, en ekki HVAÐ þú gerir” sagði sálfræðingurinn minn einu sinni.


Þetta var mér mikil aha-stund og eitt af því sem var mér mest hjálplegt á sínum tíma þegar ég var að skríða í gegnum sjúklegt streituástand.


Ég ætti ekki að gera hluti með sífellt samanbitna kjálka, stressuð yfir að geta ekki rumpað því af sem fyrst svo ég gætii byrjað á því næsta. Sífellt stressuð yfir hægum framgangi eða yfir að geta ekki fylgt ,,planinu’’ alla daga. Í staðinn gæti ég gert það sem ég þyrfti að gera, en með aukinni ró, núvitund, gert eitt í einu og helst með öllum skilningarvitum. Án þess að búa til óþarfa hraða eða streitu í kringum það. Án innri ásakana. Án þess að píska mig áfram án tillits till líðanar eða dagsforms.


Ég gæti gert það sem ég væri að gera, þegar ég gerði það. Ég gæti verið þar sem ég er, meðan ég væri þar. Og það mundi draga heilmikið úr óþarfa streitu. Mikið aha-móment fyrir miðaldra konu í þroti.


Núvitund þjálfar heilann. Hún þjálfar okkur í að veita athygli. Hún þjálfar okkur í að sitja kyrr með sjálfum okkur og skoða okkar innra og ytra umhverfi án þess að þurfa alltaf að bregðast við. Hún þjálfar okkur í að svara meðvitað í þess þess að bregðast við á hlaupum. Hún hjálpar okkur við að kastast ekki út af hamsturshjólinu. Og hvað er mikilvægara í okkar hraða- og afkastamiðaða lífsstíl en það?


En verðum við ekki að njóta í núinu? Carpe þetta Diem? Njóta dagsins? Njóta augnabliksins? Hvað ef við upplifum eitthvað annað með því að vera í núinu? Er okkur þá að mistakast?


Í kjölfar þessa þrots var mér boðið að fara á námskeið í núvitund. Á þessum tíma fannst mér ég vera að mistakast algjörlega í lífinu. Og þar talaði ég um þessa kröfu sem ég upplifði, að ég yrði að slaka á í núinu, yrði að njóta. Og þegar ég gerði núvitundaræfingar eða líkamsskönnunaræfingar, fannst mér það oft erfitt því mér leið ekki vel, og þá hlyti ég að vera gera eitthvað vitlaust.


,,Nei”, sagði sú sem hélt námskeiðið. Hún sagði: ,,Núvitund snýst ekki um að njóta. Hún snýst um að geta staðið út með það sem er. Að geta setið með sjálfum sér í gegnum það sem er erfitt og sársaukafullt, án þess að flýja frá því. Þú þarft ekki að slaka á. Bara að finna, skynja, sjá það sem er, án þess að dæma. Við erum að æfa athygli og fókus. Ekki að slaka eða njóta hvers augnabliks.” Og ég fann á einhvern öfugsnúinn hátt, hvernig ég gat slakað á við að heyra þetta.


Engar kröfur.

Ég þurfti ekki að njóta.

Ég þurfti ekki einu sinni að slaka á.

Ég þurfti ekki að gera neitt.

Bara sjá, skynja og vera með mér.

Ég var að þjálfa athyglisvöðvann í heilanum, og þurfti ekki að reyna að stýra útkomunni eða berja mig niður fyrir neitt.

Ég var ekki að gera neitt vitlaust.

Mér var ekki að mistakast.


Ég gat verið spennt, verið með höfuðverk og með milljón heimsendahugsanir í höfðinu, og bara séð það. ,,Aha, nú sé ég að ég er spennt í líkamanum, með höfuðverk og með milljón heimsenda-hugsanir í höfðinu.”


Og þá get ég valið að gera eitthvað í því. Þá gat ég dregið úr því á meðvitaðan hátt ef ég vildi.

Þegar ég var búin að sjá það.

Með því að vera í núinu.


Ingibjörg Ólafsdóttir132 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page