top of page
Search

Veljum hæglætisjól

Writer's picture: Guðrún Helga JóhannsdóttirGuðrún Helga Jóhannsdóttir

Updated: Mar 28, 2023

Ég myndi seint teljast vera mikið jólabarn. Jólin og aðventan hafa í mínum huga oft snúist upp í andhverfu sína og einkennst af miklu stressi, litlum tíma og allt öðru en jólaanda. Hér í gamla daga þurftu jólin að vera fullkomin, ég þurfti að eiga mikið af jólaskrauti og jólaseríum sem ég setti snemma upp og tók seint niður. Aðventukransinn var tilbúinn fyrir fyrsta dag aðventu og ég var oft búin að baka nokkrar sortir af smákökum fyrir þann tíma. Og ekki má gleyma jólahreingerningunni sem þurfti að fara fram hátt og lágt því annars kæmu jólin ekki.


Sem betur fer er þetta liðin tíð. Ég hef séð að þessi tegund af jólum hentar hvorki mér né minni fjölskyldu. Það hentar mér ekki að vera yfirstressuð í desember og keppast við að ná sem mestu fyrir jól og eyða litlum tíma með börnunum mínum því ég er svo svakalega upptekin að undirbúa jólin.




Í dag eru jólin okkar fjölskyldunnar tími samveru og hvíldar. Tíminn þegar ég má segja nei. Tíminn þegar ég má sitja heima og gera ekki neitt í stað þess að mæta á jólaviðburði. Jólin eru eins og ég vil hafa þau, ekki eins og búið er að telja mér trú um að þau eigi að vera.


Fyrir nokkrum árum settist ég niður með börnunum mínum og spurði þau hvað jólin væru í þeirra huga og hvernig þau vildu hafa jólin. Þeirra svör komu mér svo sem ekkert á óvart en þau voru þvert á það sem ég hélt hérna áður fyrr að væru fullkomin jól. Þau töluðu ekki um að eldhússkáparnir þyrftu að vera tandurhreinir eða að þau þyrftu að vera í nýjum fötum frá toppi til táar. Þau töluðu heldur ekki um stóru flottu jólagjafirnar sem ég hélt að væri aðalmálið.



Það sem börnin mín vildu var samvera. Þau vildu baka saman, leika saman, spila saman. Bara vera saman. Njóta aðventunnar og jólahátíðarinnar og leyfa okkur að gera ekki neitt. Liggja í leti eins og einhver myndi orða það. Þau vildu tíma með mömmu og pabba og systkinum sínum án utanaðkomandi áreitis þar sem þau gátu slakað á og hlaðið batteríin fyrir nýtt ár.



Við höfum undanfarin ár eytt jólunum á mismunandi stöðum og á mismunandi hátt. Stundum erum við með gamla gervijólatréð sem er orðið 20 ára gamalt en við höfum líka verið með viftu sem við skreyttum með jólakúlum sem jólatré og ein jólin þá teiknuðu börnin jólatré á blað sem við hengdum svo á vegginnn. Við höfum ýmist verið í sparifötum eða á náttfötunum og jólamaturinn breytist frá ári til árs. Það sem stendur upp úr eftir þessa reynslu er hversu gott og hollt er að brjóta upp fyrirfram ákveðnar hefðir. Búa til nýjar hefðir og prófa nýja hluti. Vera opin fyrir því hvað jólin þýða í raun og veru fyrir mann sjálfan og leyfa sér að fara á móti straumnum og eyða jólunum eins og maður vill.


Jólin og jólahátíðin hjá mér og minni fjölskyldu snúast ekki síður um að láta gott af sér leiða, bæði fyrir umhverfið og annað fólk. Við reynum eftir fremsta megni að gefa gjafir sem við vitum að verði nýttar eða þá að gefa upplifanir. Við forðumst það eins og heitan eldinn að gefa bara eitthvað sem við höfum ekki hugmynd um hvort verði notað. Eins er ég að reyna að innprenta í börnin mín þá hefð að í hvert sinn sem þau fái gjöf þá gefi þau gjöf. Ég vil að það verði eðlilegur hlutur að gefa áfram og láta gott af sér leiða. Þess vegna fá börnin mín öll svokallaðar Heillagjafir sem styðja við börn í Afríku, börn sem hafa ekki tök á því að halda gleðileg jól eins og við fjölskyldan höfum verið svo gæfusöm að geta gert.


Í einu orði sagt þá eyðum við jólunum okkar í hæglæti. Við gerum ekki allt hægt, heldur reynum við eftir fremsta megni að gera allt meðvitað. Velja hvað hentar okkur, hvernig og hvenær. Því hæglæti er val um að lifa meðvitað og að hafa stjórn á og val um það hvernig maður ver tíma sínum. Verða þín jól hæglætisjól?


Höfundur: Guðrún Helga Jóhannsdóttir



varaformaður Hæglætishreyfingarinnar á Íslandi



Meira um Guðrúnu hér:




Og hér finnið þið Guðrúnu á samfélagsmiðlum:



151 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page