top of page
Search

Uppskrift af Hæglætisstillingu

Fyrirvari: Ég er ekki sérfræðingur. Greinar mínar eru skrifaðar vegna áhuga og gleði yfir því að geta deilt pælingum og hugmyndum með öðrum. Þessi grein er skrifuð undir áhrifum bókarinnar “Slowing down to the Speed of Life”, eftir þá Richard Carlsson og Joseph Bailey.


Það er þolinmælisverkefni að stilla sig að hæglæti.


Hugurinn er oft stilltur á mikinn hraða og er það raunar sjálfstillingarforrit okkar flestra. Það virðist í það minnsta vera þannig, því fjöldi þeirra sem tengja við þörfina til að hægja á er mikill, eins og sjá má af fjölda þeirra sem hafa þegið eða óskað eftir að vera með í facebook hópi Hæglætishreyfingarinnar.


Það reynist okkur mörgum áskorun að viðhalda friðsælum og hæglátum huga. Það kannast ég sjálf mjög vel við. Ávinningurinn af því að ná að dvelja í hæglæti, um stund eða yfir lengri tíma, er hins vegar mjög gefandi og notalegur. Friðsældin sem skapast er svo þægileg að ég sæki sífellt meira og oftar í að finna hana og fá að vera bara þar.


Það fylgir því áþreifanleg hvíld að geta róað hugann og þar með taugakerfið, því hugurinn, sem oft leitar í að hugsa áhyggjuhugsanir og óttahugsanir, kallar fram tilfinningar sem koma taugakerfinu gjarnan í uppnám. Skapa óróa og vanlíðan. Kvíða og stress. Það er auðvelt að missa sig í að fara í endalausa hringi af áhyggjum af framtíðinni. Einhverju sem gæti hugsanlega, mögulega, kannski einhvern tímann raungerst. Eða að festast í „hvað ef ég hefði?” hringrásinni. Yfirleitt og nær alltaf eru slíkar hugsanir með öllu óþarfar og gera ekki annað en að skapa kvíða og vanlíðan, á meðan þær fá að vera óáreittar.


Ég hef lært og áreiðanlega mörg okkar, að hugsanir koma og fara. Þær eru auðvitað oft gagnlegar og gera okkur kleift að leysa verkefni líðandi stundar. Hins vegar þegar þær eru kvíðavaldandi og byggjast á áhyggjum og ótta, þá virka þær með neikvæðum hætti á okkur, líkamlega og andlega. Þær lama okkur og við missum alveg sjónar á lausnum og leiðum til að klára verkefnin okkar.


Við höfum líka mörg lært að við getum þjálfað okkur í að taka eftir hugsunum okkar og að finna áhrifin sem þær hafa á okkar líkamlegu og andlegu líðan. Þar að auki höfum við mörg lært að við getum valið nýja hugsun.


Þar liggur stærsti lykillinn að hæglæti. Það má velja aðra hugsun.


Með þjálfun, getum við orðið færari í að taka eftir hvernig hugurinn er að stjórna lífi okkar og skapa okkur (oftast) óþarfar byrgðar og þyngsl.


Mig langar þess vegna að skrifa hér upp og deila með ykkur minni útgáfu af uppskrift af Hæglætisstillingu.


Það sem þarf í uppskriftina er:

Eilítil meðvitund.

Athygli á hugsun.

Vilji til að velja og breyta.


Aðferð:

Æfðu þig að taka eftir hugsun.

Það eru margar aðferðir í að æfa sig í að taka eftir hugsun. Þú getur til að mynda ákveðið að taka eftir hugsuninni þinni núna. Hvað ertu að hugsa einmitt núna? Að taka eftir hugsun er eiginlega það sama og að taka eftir hverju öðru. Svo sem því að taka eftir rykinu á hillunni eða skítugu leirtauinu.


Þegar þú hefur tekið eftir hugsun, prófaðu þá eitthvað af eftirfarandi:

Að hugsa um appelsínu, tré, vatn eða bara eitthvað sem þú velur að hugsa um og vekur ekki með þér óþægindi eða kvíða.


Að draga athyglina að andardrættinum þínum.


Það má nota aðrar aðferðir ef þú hefur þær á takteinunum.


Niðurstaðan verður að öllum líkindum og vonandi sú að þú hefur skipt um hugsun.


Önnur niðurstaða er kannski líka sú að hugurinn hefur fengið hvíld.


Æfðu þig þegar þú tekur eftir vanlíðan, streitu, vöðvabólgu eða hverju því sem veldur þér óþægindum.


Notist að vild og í ótakmörkuðu magni.


Hér kemur svo smá tilkynning í lokin:

Frá og með deginum í dag er hægt að gerast félagi í Hæglætishreyfingunni.

Félagar í Hæglætishreyfingunni fá:

Aðgang að Hæglætissamveru einu sinni í mánuði á netinu.

Fréttabréf þegar þau eru gefin út.

Afsláttarkjör af námskeiðum sem verða í boði.

Að taka þátt í samfélagi fólks sem vill hægja á og bæta andlega og líkamlega heilsu.

198 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page