top of page
Search

Duglegir "ofur"víkingar þurfa líka að hvíla sig

"Ef þú hugsar jákvætt alla daga. Vinnur mikið, stefnir að því að vera besta útgáfan af sjálfum/ri þér, umgengst hvetjandi fólk og gefst aldrei upp! Þá eru engin takmörk fyrir hversu örmagna þú getur orðið” segir Svend Brinkmann, danskur sálfræðiprófessor við Álaborgarháskóla.


Ég leyfi mér að fullyrða að við lifum ekki bara við endalausan, stökkbreyttan veirufaraldur, heldur líka yfirþyrmandi streitu- og þreytufaraldur á háu stigi. Það er ýmislegt sem veldur því en ein ástæða eru þau gildi sem við mörg höfum tileinkað okkur og lifum eftir. Við búum í samfélagi sem leggur mikla áherslu á afköst, hraða, styrk, að vera dugleg og vinnusöm, fyrirtæki auglýsa eftir “öflugum starfsmönnum”. Það að geta haft marga bolta á lofti á sama tíma og þar sem það að vera “ofur”-eitthvað hefur lengi verið besta hrósið.


En er það nokkuð slæmt? Er það ekki aðalsmerki okkar Íslendinga að vera aðeins duglegri, sterkari og vinnusamari en flestir aðrir? Eru það ekki okkar sérstöku víkingagen sem hafa gefið okkur þetta “extra” sem aðrar þjóðir hafa ekki? Erum við ekki gerð úr betra stöffi en aðrir og sterkari, duglegri og úthaldsmeiri en fólk er flest?


Eða hvað?


Getur verið að þessi gildi og lífsstíll séu að leiða okkur á villigötur og gera okkur stressaðri, þreyttari og veikari en við þurfum að vera? Er meira og hraðar alltaf betra?


Eða erum við kannski bara eins og allir aðrir, með sama taugakerfi, streitukerfi, hormónakerfi og heila og aðrir íbúar heimskringlunnar með líkamlega og andlega þörf fyrir að hægja á sér og hvílast? Getur verið að þessi lífsstíll sé að bræða úr okkur hraðar en við gerum okkur grein fyrir? Ég held það.


Að sjálfsögðu er gott að vera metnaðarfullur, vinnusamur, örlátur og ósérhlífinn, gera sitt besta og leggja sitt af mörkum. Svo lengi sem hvatinn að baki er heilbrigður metnaður, vilji og örlæti en ekki hræðsla, kvíði og fullkomnunarárátta. Það er mikilvægt að við sníðum ekki alla okkar sjálfsmynd í kringum þessi þröngu og einhæfu gildi. Við erum dugleg þó við séum ekki alltaf að. Við erum meira en bara afköst, hlutverk og vinnusemi. Við erum ekki vélar heldur hluti af náttúrunni. Við erum mannverur með líkama og huga sem þarf að hægja á og endurheimta sig oft og reglulega. Og eins og allt í náttúrunni, þá er ekkert þar sem vex og dafnar endalaust án hvíldartímabila inn á milli. Ekki heldur ég og þú. Þrátt fyrir okkar öflugu víkingagen.


Till að standast það álag og áreiti sem nútímalíf krefst af okkur, og snúa þessum streitu- og þreytufaraldri við, er nauðsynlegt að hægja á inn á milli, auka hvíld og finna leiðir til að endurheimta orkuna.


Ég og við í Hæglætishreyfingunni hvetjum því til hugarfarsbreytingar og breyttra gilda í samfélaginu þar sem við getum og megum hægja á, slaka og hvílast. Án þess að þurfa að bíða eftir því að “eiga það skilið.” Án þess að beita okkur ofbeldi í huganum yfir því að vera löt og ómöguleg.


Er hægt að lifa lífinu án þessara innri harðstjóra sem skipa okkur sífellt að vera duglegri og sem skamma okkur fyrir að hvíla okkur þegar við þurfum á að halda?

Já ég held það. En það krefst þjálfunar og endurforritunar.


Það gerist ekki yfir nótt og það er meira en að segja það að endurforrita sig þegar harði diskurinn hamast í okkur sífellt með þessi skilaboð.


Ég hvet þig til að æfa þig í að finna stundir yfir daginn þar sem þú hægir á og hvílir huga og líkama á þann hátt sem hentar þér.

Engin innri ásökun um leti og aumingjaskap. Engin skömm. Enginn samanburður og ekkert samviskubit.


Það hljómar einfalt en er samt ekki auðvelt. Og æfingin skapar meistarann. Þetta er þjálfun.


Fyrst getum við fundið til óþolinmæði og eirðarleysis, það tekur tíma og þolinmæði að vinda ofan af margra ára uppsafnaðri spennu. En þú munt geta þjálfað þig upp í því að komast í endurnærandi og endurheimtandi hvíld með því að hægja á oft og reglulega. Þannig hlöðum við okkar dýrmætu orkubatterí, eigum meiri möguleika á að veita streitunni viðnám og komast í gegnum þann hraða, kröfur, álag og áreiti sem einkennir nútímalíf, án þess að brenna út í báða enda.


Og ÞAÐ er hið nýja ofur!



172 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page