Hæglæti - Virkni í vana
- Þóra Jónsdóttir
- 6 days ago
- 2 min read
Ég veit ekki með ykkur, en stundum er ég búin á því. Eins áhugasöm og ég er um lífið og viljug til að vera virkur þátttakandi alls staðar, þá er ég stundum bara alveg búin á því. Eins og ég hafi umbreyst í óhreyfanlegan grjóthnullung. Líkaminn drenaður. Tómur tankur. Blýþungur.
Það er í lagi.
Ég hlusta.
Ég hvíli mig.
Ég heyri.
Ég dreg mig í hlé.
Um stundarsakir.
Svo veit ég að með hvíld eykst þrótturinn og ég virkjast á ný. Ég verð aftur virk og fæ að taka þátt í venjulegu lífi mínu.
Ég hef lært og samþykkt að venjulegt líf er nóg, fyrir mig. Að leggja rækt við venjuna er lífið sjálft. Daglegu verkin, samvera með fólkinu mínu, venjulegu verkefnin.
Ég hef gefið mér leyfi til að hægja á og lifa venjulegu lífi. Ég skapa með því ró og sátt, friðsæld og frelsi til að sleppa samanburði, hamagangi, kappsemi og óþolinmæði.
Það er hægt að vera virk í vana. Leggja það í vana sinn að sýna kærleika í verki, sjálfum sér og öðrum, iðka sjálfsmildi, virkjast innan frá við verkefni daglegs lífs. Taka eftir því og finna til þakklætis. Dæma ekki og krefjast neins. Bara vera. Vera virk í vana. Leyfa öðrum.
Það er ekki vanræksla eða vanvirkni að vera aðeins virk í því venjulega. Það er nóg og ég þarf ekki að sýna neina afburði. Það er svo mitt að velja hver minn vani er. Vani minn kann að líta öðruvísi út en vani annarra. Hann er hvorki betri né verri, bara öðruvísi.
Ég vel að sleppa streitunni sem skapast við það að bera minn vana saman við vana annarra. Þannig streita er skaðleg fyrir mig. Samanburðarstreitan. Sú versta.
Ég tek venjulegar myndir, les venjulegar bækur, elda venjulegan mat, á venjuleg samtöl við venjulega fólkið mitt, fer í venjulega göngutúra og tek mér venjulega hvíld. Vinn venjulega vinnu, nota venjuleg föt, keyri venjulegan bíl, á venjulegan hund. Venjulegt er gott. Og nóg. Þarf ekki að vera keppnis eða framúrskarandi. Bara venjulega gaman.
Þegar líkaminn er ofþreyttur og andinn líka, hefur verið óvenjulega mikið á dagskrá, álagið meira en góðu hófu gegnir og ég farið yfir mörkin mín. Oft vegna þess að ég hef reynt að vera keppnis og framúrskarandi. Því ég er eins og mörg ykkar, með þá venjulegu ranghugmynd að ég verði frekar samþykkt ef ég geri óvenjulega mikið. Þá er mér mjög mikilvægt að finna aftur venjulega taktinn í venjulega einfaldleikanum.
Að lifa af ásetningi í virkum vana er að skapa sér líf í hæglæti.
Comments