Að sjóða vatn (og annað sem kennir manni að hægja á)
- Ólafur Gunnar Sverrisson

- Jan 4
- 5 min read
Ég hugsa stundum af hverju þarf maður að hlaupa á vegg til að fatta eitthvað sem maður vissi nú þegar eða hefur alltaf verið augljóst. Það að lífið verður ekki betra við að flýta sér.
Fyrir nokkrum árum hljóp ég sjálfan mig í kulnun. Klassískt dæmi. Fyrirtæki sem ég stofnaði sjálfur, endalaus ábyrgð, eilíft sense of urgency. Ég vann myrkranna á milli alla daga vikunnar. Ekkert gekk nógu hratt. Enginn vann nógu hratt. Allir voru blindir, að mínu mati, of kærulausir, of hægir, of lítið tilbúnir að fórna sér. Hvernig getur fólk verið að taka sér frí?!!
Eftir á að hyggja væri þetta eiginlega dálítið fyndið ef það væri ekki svona sorglegt og kaldhæðið. það sem maður getur verið blindur. Allt þetta stress skilaði engu sem hægt er að benda á og segja: „já, þarna breytti ég heiminum“. Enginn heimsfriður. Engin stór stund þar sem allt small saman og nú get ég notið. Bara fórnir. Fórnir á eigin heilsu – líkamlegri og andlegri. Fórnir á fjölskyldulífi. Á árum sem ég fæ aldrei aftur með börnunum mínum.
Ég tók varla frí í meira en áratug. Hvorki um helgar né á sumrin. Ég var alltaf „rétt að klára eitt í viðbót“. Þetta eina í viðbót virðist svo hafa verið endalaust. Kaldhæðnin felst í því að ég var að skapa vöru sem gerir fólki kleift að slaka á og njóta náttúrunnar. Að komast í frí. Sturluð staðreynd.
Að lokum endaði þetta með því að ég var rekinn úr eigin fyrirtæki. Þar á eftir komu deilur, reiði og biturð. En það er önnur saga sem má bíða. En eitt atvik við brottreksturinn sem stendur uppúr og afgerandi áminning, að eftir uppsögn gekk ég eftir löngum gangi, stoppaði, horfði upp í loftið og hugsaði:
„Ég er frjáls.“
Sem er pínu skrýtin hugsun þegar maður er nýbúinn að missa allt sem maður hélt að væri merkilegt, sem var stór hluti af eigin sjálfsmynd.
Í kjölfarið hófst vegferð sem er enn í gangi. Sjálfsskoðun. Endurmat gilda. Endurmat á sjálfsmynd. Ég er orðinn nokkuð sáttur við að þessi vegferð klárast líklega aldrei – og það er kannski bara eins og það á að vera. Á þessari vegferð finn ég fyrir miklum þroska, mikinn lærdóm ásamt mikilli óvissu. Þó ekki slæm óvissa heldur meiri ró yfir að vera búinn að viðurkenna ákveðinn vanmátt. Tilbúinn í að hægja á og spurja, hvað svo?
Ég hef í raun alltaf haft einhvers konar tilhneigingu til hæglætis. Alltaf verið rólegi yfirvegaði gaurinn, þegar ég lít aftur til baka þá poppar hæglæti alls staðar upp. Ég man þegar ég las fyrst um slow food hugmyndafræðina á tvítugsaldri og fannst hún rosalega heillandi. Ég ólst upp á heimili þar sem skyndibitamatur var algengur – ekki af leti endilega, heldur álagi ýmiskonar. Pabbi átti það þó til að búa til pylsur frá grunni, verka og reykja kjöt, byggja reykkofa. Andstæður sem móta mann meira en maður heldur kannski.
Þegar ég svo stofnaði eigið heimili var nær alltaf eldaður matur. Örbylgjuofn var t.d. verkfæri sem var bannað lengi vel. Ég fæ enn mikla slökun út úr því að elda. En þegar stressið jókst, þá minnkaði tíminn heima. Óhollara fæði, minni hreyfing, minni útivera. Þreytt klisja..
Ég las einhvers staðar að fólk sem lendir í áföllum eða alvarlegum veikindum leiti frekar í kyrrð og þögn frekar en í meiri afköst, meiri hraða. Ég tengi mjög sterkt við það. Kyrrðin hefur alltaf verið þar sem ég næ aftur sambandi við sjálfan mig, mikill einfari að eðlisfari.
Á síðasta ári skráði ég mig svo formlega í hæglætishreyfinguna. Fyrir tilviljun og í smá forvitni eða stundarbrjálæði, mætti ég á aðalfund, bauð mig fram í stjórn og sit þar nú með frábæru fólki í ekki svo ólíkri vegferð. “Líkur sækir líkan heim” eins og sagt er.
Þar kom upp spurning sem ég hef velt mikið fyrir mér. Hvað er hæglæti fyrir mig? Rétt svar við þessari spurningu er ábyggilega jafn misjafnt og við erum mörg. En fyrir mig? Ég held að svarið mitt sé furðu einfalt.
Það byrjar í eldhúsinu við pott.
Á mínu heimili sjóðum við vatn í potti. Upphaflega vegna þess að konan mín er A manneskja og vaknar fyrir allar aldir til að þamba te, húsið er lítið og nett en börnin léttsvæf. Hraðsuðuketill var hreinlega of hávær klukkan 5 að morgni. Sama með örbylgjuofn með pípin, bjöllurnar og skruðninginn. Þannig að vatnið var soðið hægt á hellunni í potti.
Tímarnir hafa breyst. Börnin eru orðin stór. Þau sem enn búa heima geta sofið af sér styrjöld. En ég sýð ennþá vatnið fyrir kaffið mitt í potti.
Oft stend ég þarna, starandi ofan í pottinn, pínu pirraður og hugsa:
„fjandinn hafi það! Ég kaupi mér bara ketil.“
Eða jafnvel kaffivél með hylkjum – sem ég hef samt ekki samviskuna í.
En ég geri það ekki. Ég bíð og stari bara á meðan vatnið nær upp suðu. En þá fer eitthvað áhugavert að gerast.
Ég fer að horfa út um gluggann. Á fuglana. Hugsa hversu mikil hörkutól þeir eru. Velti fyrir mér hvernig lífið væri sem lítill fugl. Ég horfi á trén, fjöllin, veðrið, litbrigðin. Hugsa hversu lítið við skiljum í raun af tilvist þeirra – og okkar eigin. Verður líka hugsað til þess hvernig lífið er ein stór bið eftir einhverju.
Við bíðum í röðum. Bíðum í bílnum. Bíðum eftir strætó. Bíðum á biðstofum. Bíðum eftir svörum, niðurstöðum, næsta kafla. Bið eftir pásu. Bið eftir frama. Bið eftir betri tíð. Meira að segja tilhlökkun er bið. Ég þori varla að hugsa til þess hversu stór hluti ævinnar fer í að bíða eftir einhverju.
Það áhugaverða er að því meira stress sem maður býr til, því verri verður biðin. Ekkert gengur nógu hratt. Allt verður ærandi.
En hvað ef biðin er ekki vandamál heldur bara tækifæri? Öryggisventill af náttúrunnar hendi?
Bið er fullkomið tækifæri til núvitundar. Að leggja símann frá sér. Hætta doomskrolli. Horfa í kringum sig. Fylgjast með fólki. Velta fyrir sér hvert það er að fara, hvað það er að glíma við. Horfa út um glugga og taka eftir lífinu – án auglýsinga, án áreitis.
Og ef biðin verður óbærileg? Þá má loka augunum. Taka djúpan andardrátt. Stutta hugleiðslu. Ég byrjaði að hugleiða síðasta vor og hún er orðin órjúfanlegur hluti af deginum mínum. Hún hefur minnkað streitu, kvíða og skerpt fókus. Stóísk hugsun hefur líka hjálpað mér að greina hvað skiptir máli – og hvað ekki. Memento mori minnir mig á að tíminn er takmarkaður. Það hægir ótrúlega mikið á manni. En að bíða er ekkert síður mikilvægt og bara lífsnauðsynlegt.
Ég held að lífið sjálft sé með innbyggðan hæglætisbúnað. Það neyðir okkur stöðugt til að stoppa og bíða. Kannski er sá tími ekki til að pirra okkur á, heldur til að meðtaka lífið og áskoranir þess betur. Meiri hraði, meiri tækni með stöðugt áreiti gerir okkur sjaldnast hamingjusamari. Við verðum bara stressaðri. Föst í stöðugri dópamínleit. Tökum ákvarðanir í fljótfærni af ótta við að missa af einhverju. Séum að sóa tíma. Tími eru peningar! Segir markaðurinn.. Samt er það ekki það sem fólk sér eftir þegar að sólsetri kemur. Fyrir mitt leyti þá felst eftirsjáin í að hafa ekki notið meira. Notið samveru, notið náttúrunnar meira, notið augnabliksinns. Augnablikið er nefnilega það eina sem við eigum.
Ég hvet alla til að prófa að horfa á vatnið sjóða í potti. Njóta stundarinnar. Vatn er eitt af töfraefnum náttúrunnar. Hljóðið, snertingin, bragðið. Prófið að drekka vatnsglas hægt og af fullri meðvitund.
Kannski byrjar hæglæti ekki á stórum afgerandi ákvörðunum. Kannski byrjar það bara við að sjóða vatn í potti..



Comments