top of page
Search

Er ekki bara heppni að finna fjarvinnu?

Í gegnum minn starfsferil hef ég lang oftast unnið fjarvinnu. Vinnu sem krefst þess ekki að ég mæti í eigin persónu á ákveðinn vinnustað, heldur geti sinnt mínu starfi á þeim tíma sem mér hentar þar sem ég er þá og þá stundina.

Þessi störf hafa verið ýmis konar, allt frá framkvæmdastjórastöðu fyrir frjáls félagasamtök, til þýðinga á bíómyndum og prófarkalesturs. Ég var svo staðráðin í að vera ekki háð ákveðinni staðsetningu til að geta unnið að ég ætlaði að láta það ganga upp og hef að ásettu ráði ekki ráðið mig í starf sem ekki er fjarvinna.

Í dag vinn ég starf sem krefst fullkominnar blöndu fjarvinnu og staðvinnu sem aðstoðarframkvæmdastjóri frjálsra félagasamtaka. Ég mæti á skrifstofuna einu sinni í viku en sinni þess á milli vinnunni á mínu heimili en hef þegar þörf krefur ákveðið svigrúm. Starfið mitt krefst líka ferðalaga sem fullkomnar blönduna og fullnægir minni flökkuþörf. Ég skrifa þennan pistil frá Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó þar sem ég er í vinnuferð en get á sama tíma auðveldlega sinnt þeim verkefnum sem sinna þarf á Íslandi með fjarvinnu.Fjarvinna hentar mér og minni fjölskyldu fullkomlega. Það hentar okkur betur að ég vinni fjarvinnu, þar sem ég er ráðin til starfa ótímabundið heldur en að vinna til dæmis sjálfstætt sem ráðgjafi. Með því að vinna fjarvinnu þá minnkar stressið að þurfa að finna verkefni eða búa til söluvöru, þú mætir í þína vinnu á þeim tíma sem þú semur um við vinnuveitanda þinn en í stað þess að mæta á ákveðinn stað í eigin persónu þá sestu fyrir framan tölvuskjáinn þar sem þér hentar. Að vinna fjarvinnu auðveldar hversdagsleikann hjá okkur fjölskyldunni, ég þarf ekki að rífa mig upp fyrir allar aldir til að undirbúa mig fyrir vinnuna, drösla krökkunum út og keyra langa leið til að vera mætt á réttum tíma á ákveðinn stað. Heldur er ég þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga rólega og þægilega morgna með fjölskyldunni. Við vöknum öll á sama tíma, ég undirbý yngstu börnin í skólann á meðan eiginmaðurinn undirbýr sig. Eiginmaðurinn fer svo með yngsta barnið í leikskólann á leið sinni til vinnu og á meðan ég get tekið minn tíma í að hefja minn vinnudag. Ég get sest við tölvuna ómáluð í náttfötum ef ég á ekki mikilvæga fundi og ég get verið vel til höfð að ofan og í náttbuxum að neðan þá daga sem fundir kalla. Ég get semsagt alveg ráðið mér sjálf og það er engin pressa á mig að drífa mig eða vera hér eða þar og ég er því í lok dags mun betur í stakk búin til að vera til staðar fyrir börnin mín.

En er ekki bara heppni að lenda á starfi sem hægt er að vinna í fjarvinnu? Geta allir fundið slíkt starf?

Það er hægt að finna fjarvinnu á marga vegu. Auðveldast er að tala við núverandi vinnuveitanda og bera undir hann hugmyndina að sinna vinnunni í fjarvinnu. Ef starfið sem sinnt er í dag er ekki þess eðlis að það bjóði upp á fjarvinnu eða ef vinnuveitandi tekur illa í hugmyndina má reyna fyrir sér að finna annað starf. Eða jafnvel halda áfram í núverandi starfi og sinna verkefnum í aukavinnu og byggja hægt og örugglega upp næga innkomu til að geta sagt aðalstarfinu lausu. Það geta flestir fundið eða búið til slíkt starf. Það geta flestir hannað sitt eigið líf og látið hlutina ganga upp á sínum forsendum. Oft er þetta spurning um að stíga út fyrir þægindarammann og þora að taka skrefið, trúa á sjálfa(n)/sjálft sig og vera tilbúin(n)/ð til að gera mistök og læra af þeim. Það tók mig mörg mörg ár og margar tilraunir og ennþá fleiri mistök að komast þangað sem ég er í dag og það var klárlega ekki fyrir heppni að þetta hafðist. Heldur tók ég þá ákvörðun að móta mitt líf sjálf og að fjarvinna væri ekki samningsatriði í mínu lífi heldur nauðsyn. Þannig að eins mikið og mamma þarf að ferðast (e. Mommy Needs to Travel), þá þarf mamma líka að vinna fjarvinnu.

Höfundur: Guðrún Helga Jóhannsdóttir

meðstjórnandi hæglætishreyfingarinnar á Íslandi

Meira um Guðrúnu hér:

Og hér finnið þið Guðrúnu á samfélagsmiðlum:


224 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page