top of page
20180923_112235.jpg

Hvað er hæglæti?

HÆGLÆTI SVAR VIÐ HRAÐA OG STREITU SAMFÉLAGSINS

Hæglætishreyfingin er hreyfing fólks sem hefur tileinkað sér eða hefur áhuga á að tileinka sér hæglæti (e. slow living, einnig simple-living). Hæglæti er svar við hraða og streitu samfélagsins. Hæglæti er val um að lifa meðvitað og að hafa stjórn á og val um það hvernig maður ver tíma sínum. Hæglæti getur veitt okkur aðgang að því að verða meðvituð um að maður hefur alltaf val um ákvarðanir og aðstæður og þar með að upplifa sig ábyrgan fyrir eigin líðan, heilsu og samskiptum sínum við aðra.

 

ÁVINNINGUR HÆGLÆTISLÍFSSTÍLS

Hæglæti getur haft það í för með sér að auðveldara verður að dvelja í núvitund, að vera vakandi og með athygli á núlíðandi stund. Að heyra og hlusta, að anda og njóta, að velja meðvitað að takmarka streitu, draga úr neyslu, taka sér minna fyrir hendur og gera færri hluti í einu. Að beina athyglinni frekar að því að vera í stað þess að vera upptekinn af því að gera æðislega mikið. Fara hægar yfir, þá aðallega huglægt, einfalda lífið og draga úr kröfum. Hæglæti er þó ekki það sama og að gera allt löturhægt. Hæglætishugsun getur einmitt hjálpað okkur að fara hratt yfir, þó við gerum bara eitt í einu.

Hæglætishreyfingin á rætur sínar að rekja til Hæglætisfæðuhreyfingarinnar (e. Slow-food movement) sem varð til á Ítalíu á níunda áratug liðinnar aldar. Sagan segir að upphafsmaður hreyfingarinnar, Carlo Petrini, hafi í einskonar mótmælaaðgerð gegn skyndibitastöðum á borð við MacDonalds, hafið baráttu við að vernda ítalskar matarhefðir og menningu sem fólu það í sér að taka sér góðan tíma til matargerðar og neyslu matar, að notast við hráefni sem væri ræktað sem mest í nálægð við neytandann og að matur væri útbúinn frá grunni. Aðalhvatningin var að njóta þess að matbúa og borða í hæglæti. Í dag hefur hæglætisfæðuhreyfingin breiðst út um allan heim og nýtur verðskuldaðrar hylli.

bottom of page