

Ingibjörg Ólafsdóttir
Ritari hæglætishreyfingarinnar á Íslandi
Ég er með menntun og reynslu í ýmsu og allskonar. T.d. háskólamenntun í gæðastjórnun, mannfræði, fjölmiðlun og nú síðast kláraði ég nám í slökunar- og streituráðgjöf frá Svíþjóð. Ég hef unnið við t.d. málefni hælisleitenda í Svíþjóð, foreldrastarf og skiptinemastarf á Íslandi.
Núna er ég í atvinnuleit eftir nokkra fjarveru frá vinnumarkaðnum í kjölfar kulnunar.
Ég bý í bænum Söderhamn í Svíþjóð frá árinu 2008 vegna læknisnáms makans en við höfum ílengst þar, þó stefnum við á að flytja til Uppsala frá vorinu 2021. Er annars frá Reykjavík en bjó í Keflavík í nokkur ár. Á ítalskan eiginmann, fjögur börn milli 11 og 24 ára og tvítugan stjúpson, hund, kött og fjórar skjaldbökur!
Hæglætis áherslur mínar eru sjálfbær og heilbrigður taktur milli virkni og hvíldar, mikilvægi reglubundinnar hvíldar í hinu dags daglega, mikilvægi þess að minnka hraða og draga úr óþarfa spennu í hinu daglega lífi, streitustjórnun, forvarnir gegn streitu og kulnun, núvitund.
Ég er mikill lestrarhestur og hef líka gaman að því að prjóna. Fyrir utan það að halda úti miðlunum mínum sem er mitt helsta áhugamál. Gönguferðir og garðyrkja fylla líka á batteríið.


Ég held úti Instagram og Facebook reikningunum Streita-kulnun-hvíld og mig er að finna undir Ingibjörg Ólafsdóttir á Facebook.
Samfélagsmiðlarnir mínir eru vettvangur fyrir eigin hugleiðingar og fræðslu um streitu, kulnun, burnout og bata frá ýmsum áttum. Markmið er að auka þekkingu, skilning og stuðning við fólk sem þjáist af streitu og kulnun, því algenga og alvarlega heilsufarsvandamáli sem það er, og auka þekkingu út í samfélagið svo við getum betur fyrirbyggt og gripið inn í áður en skaðinn er skeður, sem og stutt við þá sem eru í bataferli.

