top of page

Hæglætishreyfingin á Íslandi

Stofnuð 26. janúar 2021

Hæglætishreyfingin á Íslandi er kynningar- og umræðuvettvangur fyrir fólk sem hefur tileinkað sér eða hefur áhuga á að tileinka sér hæglæti (e. Slow Living).
 
Tilgangur Hæglætishreyfingarinnar er að tala fyrir og fjalla um hæglæti.
 
Hæglæti er líf í meðvitund og svar við hraða og streitu samfélagsins.

20180925_153708.jpg

Saga Hæglætishreyfingarinnar

Hæglætishreyfingin á rætur sínar að rekja til Hæglætisfæðuhreyfingarinnar (e. Slow-food movement) sem varð til á Ítalíu á níunda áratug liðinnar aldar.

 

Sagan segir að upphafsmaður hreyfingarinnar, Carlo Petrini, hafi í einskonar mótmælaaðgerð gegn skyndibitastöðum á borð við McDonalds, hafið baráttu við að vernda ítalskar matarhefðir og menningu sem fólu það í sér að taka sér góðan tíma til matargerðar og neyslu matar, að notast við hráefni sem væri ræktað sem mest í nálægð við neytandann og að matur væri útbúinn frá grunni. Aðalhvatningin var að njóta þess að matbúa og borða í hæglæti. Í dag hefur hæglætisfæðuhreyfingin breiðst út um allan heim og nýtur verðskuldaðrar hylli.

Hæglætislíf er nokkuð sem fylgt hefur mannkyninu frá örófi alda en hefur ekki verið ástundað af stórum hópum fólks nú um langa hríð. Þessi ofsalegi hraði, kröfur og áreiti sem einkennir stóran part heimsins hefur verið að aukast síðustu 100 ár. Hæglætishugmyndir og hugmyndafræði eiga rætur sínar að rekja allt aftur til forngrikkja og þangað leitum við meðal annars að innblæstri. 

 

Hæglætishreyfingin er hreyfing fólks sem hefur tileinkað sér eða hefur áhuga á að tileinka sér hæglæti (e. slow living, einnig simple-living). Hæglæti er svar við hraða og streitu samfélagsins. Hæglæti er val um að lifa meðvitað og að hafa stjórn á og val um það hvernig tíma sínum er varið. Hæglæti getur veitt aðgang að því að verða meðvitaðri um að hafa val um ákvarðanir og aðstæður og þar með að upplifa sig ábyrgan fyrir eigin líðan, heilsu og samskiptum sínum við aðra.

 

Hæglætishreyfingin á Íslandi var stofnuð 26. janúar 2021. Hópur kvenna með ólíkan bakgrunn, þekkingu og reynslu en sameiginlegan áhuga og ástríðu fyrir betra lífi og bættum lífsskilyrðum tóku sig saman og stofnuðu Hæglætishreyfinguna. Þessar öflugu konur hafa allar á einhvern hátt helgað líf sitt því að þróast í átt að hæglætislífi og auknum lífsgæðum. Sumar hafa ástundað hæglæti lengi, aðrar skemur. Sumar meðvitað, aðrar ómeðvitað.

 

Stjórn 2023-2024

bottom of page