top of page
Search

Hæglætishreyfingin eins árs

Það er liðið ár síðan Hæglætishreyfingin var formlega stofnuð á Íslandi. Jörðin hefur ferðast heilan hring um sólina og heilmikið vatn runnið til sjávar á þeim tíma.


Og við erum enn að. Við erum enn að hittast. Við erum enn að nota hæglætið. Við erum enn að skapa meðvitund um núið. Við skrifum, við gerum hlaðvörp, við deilum með heiminum hæglætisfóðri, við erum með instagram reikninga til að deila með öðrum innblæstri til að hægja ferðina og lifa fleiri meðvitaðar hæglætisstundir. Margir hafa sýnt hæglætinu áhuga og fylgjast með. Margir hafa “smitast” og sannarlega hægt ferðina og farið að bæta inn kósíheitum og “hygge” í líf sitt. Það þykir mér fallegt að sjá.


Til hamingju með afmælið! Og til hamingju með aukna stjórn á ykkar lífi. Til hamingju með meðvitundina.


En hvað er hæglæti?


Hæglætið er hæfni til að staldra við, taka sér stund til að meta aðstæður, hvílast, hægja á, taka meðvitaðar ákvarðanir um lífið, stjórna og bera ábyrgð á ákvörðunum sínum, vera meðvituð um ábyrgð sína og möguleika í samskiptum við sjálft sig og allt fólk.


Og af hverju er hæglætið orðið svona mikið “hype”?


Mér sýnist hæglætið vera kærkomið mótvægi við pressuna sem okkur birtist svo víða úr öllum áttum og kimum samfélagsins. Hæglætið er valkostur gagnvart keppni um að vera best og mest og í samanburði við aðra, hæglætið getur hjálpað okkur að næra okkur sjálf og kenna okkur að tengja inn á við, meta okkur sjálf og læra að við erum mikilvægur jarðvegur sem þarf að hlúa að svo hann geti haldið frjósemi og lífvænlegum skilyrðum, fyrir okkur sjálf og aðra. Hæglætið er þannig góður förunautur fyrir fjölskyldur og fólk með börn. Það er frábært að lifa í hæglæti og meðvitund með börnum og það er dásamlegt að sjá hve margar ungar fjölskyldur lifa fallegu og hægu lífi, velja vel og eru á staðnum og til staðar fyrir börnin sín.

Fyrir sjálfa mig er hæglætið lífsstíll og ákvörðun.


Hæglætið er mikilvægt fyrir mig því ég hugsa margt og fæ geysilega margar hugmyndir.

Hæglætið er mikilvægt fyrir mig því ég stýri mörgum verkefnum og tek virkan þátt í lífinu.

Hæglætið er mikilvægt fyrir mig því ég vil stunda góð samskipti og hlusta vel á fólkið mitt.

Hæglætið er mikilvægt fyrir mig því ég vil taka meðvitað ákvarðanir en ekki stjórnlaust.

Hæglætið er mikilvægt fyrir mig því með því hvílist ég betur.

Hæglætið er mikilvægt fyrir mig því með því þakka ég betur og kann betur að meta og sjá.

Hæglætið er mikilvægt fyrir mig því með því fyrirgef ég betur.

Hæglætið er mikilvægt fyrir mig því með því skil ég betur og dæmi síður.

Hæglætið er mikilvægt fyrir mig því með því tekst mér betur að taka sjálfa mig út úr jöfnunni og sjá heildarmyndina betur.


Takk fyrir samfylgdina á fyrsta ári Hæglætishreyfingarinnar á Íslandi


Þóra Jónsdóttir,

Leiðandi Hæglætishreyfingarinnar á Íslandi


125 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page