top of page
Search

Ég vel að vaxa

Lífið er fullt af andstæðum. Stundum er sagt að það þurfi að upplifa erfiðleika til að kunna að meta hlutina. Ég held að það sé að mörgu leyti rétt.


Fyrir nú bráðum fjórum árum síðan upplifði ég mikið áfall. Pabbi minn, rétt á miðjum aldri og í fullu fjöri, að ég hélt, varð bráðkvaddur.


Ég hafði ekki áður upplifað missi af alvöru og vá hvað lífið minnti mig á allan þess breiskleika. Ég kynntist því þarna að gleði og sorg eru miklar systur.


Á þessum tæpu fjórum árum hef ég að auki upplifað ýmsa erfiðleika en að sama skapi aldrei verið jafn hamingjusöm í hjartanu. Andstæður ekki satt!


Ég fann þegar ég stóð móti dauðanum hvað lífið er svakalega verðmætt. Ég fann í sársaukanum hve ótrúlega mikilvægt allt í lífinu mínu er. Ég ákvað að velja viðhorf. Rembast ekki gegn því sem ég fæ ekki breytt en rækta það sem hægt er að rækta.


Mestu máli af öllu skiptir að rækta mig sjálfa og ná að öðlast meiri þroska. Það felur margt í sér að þroskast. Þekkja sína eigin bresti, nota erfiðleika til að vaxa, heila gömul sár, segja skilið við gömul mynstur og svo lengi mætti telja. Ef ég rækta mig sjálfa og passa upp á mig er ég líklegri til að gefa af mér. Einföld formúla en getur reynst erfið.


Annað sem ég ákvað líka að gera fyrir þessum tæpu fjórum árum og það var að upplifa erfiðar tilfinningar og viðurkenna erfiðleika. Ekki bæla niður eins og mér var tamt. Sársauki og það að liða illa um stund er alls ekki jafn hættulegt og við oft höldum!


Á þessum tíma hef ég grátið, sagt skoðanir mínar, sett mörk, gert mistök og setið með sársaukanum. Reynt að geyma hann ekki í líkamanum. Því það er þannig að óuppgerður sársauki kemur fram í andlegum og líkamlegum verkjum. Stundum gengur það vel að vinna í sér og þroskast - stundum ekki. Ég er ekki fullkomin en samt með skýrt markmið. Það er að forða næstu kynslóð frá sem mestum sársauka.


Það sem ég er að reyna að tjá er að það fara sárafáir í gegnum lífið án áfalla. Öll glímum við við eitthvað. Það sem skiptir öllu máli í þessu samhengi er það hvernig við vinnum úr áföllum okkar og erfiðleikum.


Það að standa á móti mögulega sínum mesta óvini en finna samt kjark og sálarró er mikil gjöf. Það að sakna sárt og finna sársauka en vera samt svo þakklátur fyrir lærdóminn er líka gjöf.


Ég vil vaxa við hverja hindrun og ég vel meðvitað mín viðbrögð.

212 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page